Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6190

Seðlabankinn viðurkennir dýr mistök

$
0
0

Það er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jak að skapa óstöðugleika.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í yfirlýsingu nefndar um peningastefnu frá þriðja febrúar segir orðrétt „Verðbólga jókst í janúar og mælist 4,3 prósent. Hér vega enn þungt áhrif gengislækkunar krónunnar á verð innfluttrar vöru“. Sem sagt, hærri verðbólga en þekkist hjá samkeppnislöndum er heimasmíðað vandamál. Vegna fordæmalausra aðstæðna þá hafði bankinn möguleika á að taka krónuna tímabundið af markaði. Bankinn kaus að gera það ekki. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef gagnrýnt sinnuleysi bankans hér á Miðjunni, en hann hlustar á engan utan veggja svörtulofta við Kalkofnsveg. Bankinn taldi sig geta haft stjórn á gengi krónunnar í gegnum markaðssamtal, inngrip og ólögmætt markaðssamráð við lífeyrissjóði. Leikplanið gekk ekki upp. Fyrir vikið þá er trúverðugleiki bankans á hröðu undanhaldi. Úlfur, úlfur hugsa menn þegar bankinn tjáir sig næst um krónuna.

Öll finnum við fyrir gjaldskrárhækkunum um allar trissur og hækkandi vöruverði. Hækkun lægstu launa er að étast upp. Fyrir þá sem enn hafa verðtryggð íbúðalán þá er þessi háa verðbólga rán í björtu. Axarsköft bankans valda því til dæmis að sá sem skuldaði 40 millur í verðtryggt íbúðalán fyrir ári síðan og hefur ekki þurft að borga af höfuðstólnum skuldar rúmlega 1,7 millur meira í dag. Ef hann yrði að borga skaðann eða verðtrygginguna í dag þá nemur þetta rúmlega 23 prósent af árslaunum aðila með sex hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun. Ef sami aðili byggi við Færeyskar aðstæður þá hefði höfuðstóllinn rýrnað um 0,4 prósent.

Færeyingar og Danir eru svo heppnir að búa við stöðugan gjaldmiðil. Danska krónan er nefnilega bundin með rembihnút við evruna. Mynt sem hefur verið mjög stöðug á veirutímum. Árangurinn sést á myndinni sem fylgir. Á henni er samanburður á atvinnuleysi og verðbólgu í löndunum þremur. Lakur árangur Íslands í verðlagsmálum skýrist af ónýtri mynt. Seðlabankinn ber ekki einn ábyrgð. Það er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jak að skapa óstöðugleika. Svo talar Guðlaug Kristinsdóttir hjá fjárfestingarfyrirtækinu Stekk fjálglega um krónuna og segir hana traustan landamæravörð í breiðu viðtali hjá Fréttablaðinu núna í vikunni. Meira um þá vitleysu í næstu grein.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6190