


Þessi hegðun seðlabankastjóra er grafalvarleg og grefur undan trúverðugleika íslensks fjármálakerfis og heilbrigðri verðmyndun.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Seðlabankinn hefur svarað bréfi sem ég beindi til seðlabankastjóra og birt var á Miðjunni. Svarið og önnur gögn staðfesta að seðlabankastjóri stóð í ráðabruggi með lífeyrissjóðum landsins áður en sjóðirnir ákváðu í tvígang að gera hlé á erlendum fjárfestingum og hlífa krónunni. Seðlabankastjóri gaf út yfirlýsingu 15. júní síðastliðinn sem hefst svona „Í samráði við Seðlabanka Íslands gerðu lífeyrissjóðir hlé á gjaldeyriskaupum til erlendra fjárfestinga frá 17. mars sl.“. Afrit af yfirlýsingunni má finna með greininni.
Í svari bankans til mín segir síðan orðrétt „Hér er um að ræða sjálfstæða ákvörðun lífeyrissjóðanna eftir hvatningu frá Landssamtökum lífeyrissjóða, í kjölfar samtals við seðlabankastjóra ...“. Afrit af svarinu má einnig finna með greininni. Með þessu reynir bankinn að halda úti þeirri glórulausu vörn að bankinn hafi ekki átt aðkomu að málinu þrátt fyrir að það stangist á við gögn málsins. Í yfirlýsingu bankastjórans og í svari bankans er að finna lýsingarorð eins og „samráð“, „samvinna“ og „samtal“. Allt orð sem verða ekki misskilin þó menn leggi mikið á sig.
Um er að ræða ólögmætt markaðs- og verðsamráð samkvæmt minni þekkingu.
Landssamtök sjóðanna sendu einnig frá sér tilkynningu þann 15. júní síðastliðinn sem segir okkur einstaka sögu á heimsvísu, en tilkynninguna er að finna með greininni. Í henni er upplýst að seðlabankastjóri hafi mætt tvívegis á fund með forkólfum lífeyrissjóða landsins til ráðuneytis og upplýsingagjafar. Í yfirlýsingunni segir að seðlabankastjóri hafi farið yfir stöðu efnahagsmála og hvatt sjóðina til áframhaldandi hlés á gjaldeyriskaupum. Hér er um atburð að ræða sem á sér ekki hliðstæðu í heimi seðlabanka. Um er að ræða ólögmætt markaðs- og verðsamráð samkvæmt minni þekkingu. Óheyrt er að seðlabankastjórar mæti á fund út í bæ með sérvöldum einkafjárfestum og veiti aðgang að innherjaupplýsingum seðlabanka varðandi stöðu hagkerfisins og gjaldmiðils viðkomandi lands.
Viðtekin venja seðlabanka er að þegar þeir hafa eitthvað að segja þá er upplýsingum miðlað með þeim hætti að allir hafa jafnan aðgang í tíma í gegnum netið. Þannig er komið í veg fyrir upplýsingaforskot einstakra fjárfesta. Einnig er stuðst við opna fjölmiðlafundi sem streymt er yfir netið. Þær yfirlýsingar sem ofangreindir aðilar sendu frá sér sama dag eru þess eðlis að þær áttu sér aðdraganda og komu í kjölfar fundahalda og annarra samskipta. Vel tengdir aðilar gátu því orðið sé út um óopinberar upplýsingar og öðlast upplýsingaforskot í ábataskyni. Þessi hegðun seðlabankastjóra er grafalvarleg og grefur undan trúverðugleika íslensks fjármálakerfis og heilbrigðri verðmyndun. Seðlabankastjóri veitti tilteknum markaðsaðilum þetta upplýsingaforskot með fundamakki. Enginn skal efast um að hreyfingar á markaði geta verið leiftursnöggar og auðvelt er að nýta sér upplýsingaforskot í hagnaðarskyni. Slíkt er ávallt á kostnað fjárfesta sem ekki búa yfir innherjaupplýsingum. Ekki er útilokað að neytendur eða aðrir hagaðilar hafi orðið fyrir fjárhagstjóni vegna framferðis seðlabankastjóra og þess markaðs- og verðsamráðs sem hann kom að.
Svo verður að benda á það að innbyrðis samráð lífeyrissjóðanna er ólöglegt enda bjagar það gagnsæi og heilbrigða verðmyndun á markaði. Til viðbótar þá var sú staða uppi að forkólfar sjóðanna gátu upplýst sína samstarfsaðila og vildarvini um hvað var í farvatninu áður en tilkynningarnar voru ritaðar og útgefnar. Sumir gátu þannig orðið sér út um upplýsingaforskot á kostnað hinna óupplýstu.
Ráðabruggið sem um ræðir er brot á samkeppnislögum og ákvæðum laga um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og þeirri venju að hafa trúverðugleika fjármálamarkaðarins að leiðarljósi. Samkvæmt lögum þá skal verð krónunnar vera myndað á markaði og heyra viðskipti með hana undir lög um verðbréfaviðskipti enda er krónan ekkert annað en verðbréf með breytilegt virði og breytilegan kaupmátt.
Samráð lífeyrissjóðanna um að gera hlé á erlendum fjárfestingum hefur bein áhrif á eftirspurn innanlands eftir skulda- og hlutabréfum. Lífeyrissjóðirnir þurfa vegna hlésins að leita í innlenda fjárfestingarkosti í meira mæli en ella. Það út af fyrir sig hefur áhrif á verðlagningu á umræddum mörkuðum. Þannig að áhrifin af samráðinu eru víðfeðm.
Málið er svo alvarlegt að ekki verður komist hjá opinberri rannsókn.
Málið er svo alvarlegt að ekki verður komist hjá opinberri rannsókn. Sá aðili sem er nærtækastur til að rannsaka ráðabruggið er Fjármálaeftirlitið, en nú háttar því svo til að eftirlitið rann inn í Seðlabankann um síðustu áramót. Seðlabankastjóri er þar með æðsti yfirmaður Fjármálaeftirlitsins samkvæmt skipuriti. Hann verður því að víkja til hliðar meðan á rannsókn stendur. Hyggilegast er þó að fara með rannsóknina út fyrir bankann vegna þess að nánir samstarfsmenn seðlabankastjóra og mögulegir samverkamenn geta ekki komið að því að rannsaka sjálfan sig. Innan Seðlabankans eru mjög takmarkaðir Kínamúrar ef þá er að finna yfirleitt. Samkeppniseftirlitinu er aftur á móti ekkert að vanbúnaði að rannsaka það sem að því snýr. Leiðarstef samkeppnislaga er að efla virkni markaða almenningi og atvinnulífi til heilla.
Seðlabankastjóri hefur sérstaklega orð á því í yfirlýsingu sinni að „samvinna“ bankans og sjóðanna hafi vakið athygli erlendis, en sú athygli er af öðrum toga en seðlabankastjóri telur sjálfur. Hin erlenda athygli beinist að samráðinu og veitingu innherjaupplýsinga og engu öðru. Seðlabankastjóri snýr öllu á hvolf í tilraun sinni að hampa sjálfum sér samanber yfirlýsing hans, en honum varð ekki kápan úr því klæðinu.
Þetta mál gefur tilefni til að rifja upp úr hvaða umhverfi og menningu seðlabankastjóri kemur, en hann var yfirmaður hjá hrunabankanum Kaupþingi. Banki sem margir töpuðu aleigunni á. Sannast hefur að þar á bæ báru ýmsir ekki virðingu fyrir lögum, beygðu og sveigðu að einkahagsmunum. Nú stendur upp á forsætisráðherra að bregðast við enda heyra málefni seðlabanka undir forsætisráðuneytið.
Hér að neðan má lesa bréf höfundar til Seðlabankans, svar bankans, yfirlýsingu Seðlabankns um hlé á gjaldeyrisviðskiptum og svo bréf formanns Landssamtaka lífeyrissjóða:
Bréfið til Seðlabankans:
Seðlabanki Íslands
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri
Kalkofnsvegi 1
101 Reykjavík
Efni: Yfirlýsing Seðlabanka Íslands, dagsett 15. júní 2020, vegna framlengds hlés á gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða.
Undirritaður óskar góðfúslega eftir afriti af ofangreindu samkomulagi og vísar í þeim efnum til bæði upplýsinga- og stjórnsýslulaga. Þetta mál varðar mig sem neytanda sem mögulega kaupir eða selur gjaldeyri vegna eigin þarfa og hefur samkomulagið því áhrif á stöðu hans.
Sú skipan er á Íslandi að verð krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er ætlað að vera myndað á markaði og skulu gjaldeyrisviðskipti vera óheft nema annað sé ákveðið í lögum og tilheyrandi reglugerðum. Í þessu samhengi þá vill undirritaður góðfúslega vera upplýstur um á hvaða lagagrundvelli ofangreint samkomulag við einkaaðila er gert. Einnig er spurt hvort ekki sé í raun verið að taka gangverk gjaldeyrismarkaðarins úr sambandi með samkomulaginu og hvort samkomulagið skapi ekki falska verðmyndun fyrir verð krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri.
Þá er spurt hvort ekki hefði verið hreinna að taka krónuna af markaði eins og heimild í lögum stendur til og koma öðru skipulagi á þar sem allir standa jafnt að vígi. Og ef svarið er neikvætt þá er ágætt að heyra rökin þar að baki.
Að lokum þá spyr undirritaður góðfúslega hvort ekki sé í raun verið að færa veikingarvanda krónunnar til í tíma og fram á haustið. Veldur samkomulagið ekki því að upp mun byggjast himinhátt eftirspurnarfjall eftir erlendum gjaldeyri sem mun leiða til mikillar veikingar krónunnar síðar með tilheyrandi innfluttri verðbólgu.
Reykjavík 16. júní 2020
Jóhann Þorvarðarson.
Hér er svar Seðlabankans:

Hér er yfirlýsing Seðlabankans um hlé á gjaldeyriskaupum:

Hér er bréf formanns Landssamtaka lífeyrissjóða:
