Hallgrímur Óskarsson skrifaði þessa eftirtektarverðu grein.
Þegar kemur að því að velja hvar eigi að geyma og ávaxta viðbótarlífeyri þá geta Íslendingar valið úr mörgum séreignasjóðum. Margir tugir sjóða eru í boði á okkar litla markaðssvæði og er því mikilvægt að móta sér skoðun á því hvaða sjóðir koma til greina sem ágætir valkostir í viðbótarsparnaði fyrir almenning.
Engin ein regla er til sem metur hvaða sjóðir eru betri en aðrir. Bæði er það að forsendur fólks eru mismunandi og grunngerðir sjóða einnig; svo kemur líka til að það er erfitt að velja hvaða þættir eiga að ráða mestu. Er það ávöxtun eða stöðugleiki eða aðrir þættir? Er vænlegt að velja sjóð með háa ávöxtun en aðeins stuttan starfstíma? Eða er betra að velja sjóð sem kom vel út úr hruninu, tók litla áhættu? Allt eru þetta spurningar sem hver og einn getur haft mismunandi svör við.
Einnig má geta þess að við höfum mjög mismunandi ávöxtun í séreignarsjóðum líkt á einnig við um sameignarsjóði (skyldulífeyrissjóði). Ef við skoðum alla sjóði á Íslandi þá er munurinn næstum sexfaldur á hæstu og lægstu meðalraunávöxtun í séreign, ekki ósvipað og er raunin með sameignarsjóði. Annað sem gerir það erfitt að bera saman séreignarsjóði á Íslandi er að þeir hafa starfað í mjög mismunandi langan tíma. Sumir í 2 ár, aðrir í 10 ár og allt upp í 20 ár eða meira og gerir það allan samanburð erfiðari.
Hér á landi hefur verið allnokkuð hringl með séreignasjóði, sjóðir að sameinast og fengið ný heiti og svo sumir að hætta og svo nýjir að byrja sem gerir það að verkum að erfiðara verður að rekja sögu sjóða, einkum þegar saga forvera sjóða er ekki birt með þeim gögnum sem birt eru í nafni sjóðs með nýju nafni. Þetta lýsir öðrum þræði umhverfi sem er ekki orðið nógu stöðugt í eðli sínu, líkt og margir þættir íslensks viðskiptalífs hafa verið á síðustu áratugum.
Erlendis er algengara að sjá sjóði sem höndla með frjálsan sparnað sem starfað hafa í marga áratugi eða jafnvel meira en 100 ár í óbreyttri mynd. Reynslan sýnir nefnilega að stöðugleiki í ávöxtun gefur oft vísbendingu um langtímaárangur lífeyrissjóða. Það er því fagnaðarefni að sumir íslenskir sjóðir eru farnir að birta upplýsingar um stöðugleika í ávöxtun á vefsíðum sínum.
Ofangreind mynd sýnir þann mun sem er í ávöxtun íslenskra séreignasjóða og þýskra séreignarsjóða (ávöxtun í evrum). Við sjáum að ávöxtun er miklu stöðugri á meginlandinu en íslensku sjóðirnir sýna miklu meiri sveiflur. Eftirtektarvert er að sjá árið 2008 þar sem séreign á Íslandi hrundi um -13,4% (þó ekki eins mikið og sameign, sem hrundi um -22,9%) en margir séreignasjóða í Þýskalandi högguðust ekki. Ef tímabilið fyrir hrun er skoðað, sem var mikið uppgangstímabil á Íslandi þá var ávöxtun í evrum og í ISK næstum því sú sama. Tvö ár, 2002 og 2007 drógu mikið úr árangri góðu áranna en í evrum voru öll árin nær því að vera svipuð. Eftir hrun, sem væri bæði aðhaldstími og uppgangstími, var áfram mikill stöðugleiki í ávöxtun á séreignarsjóðum í evrum (í Þýskalandi). Á Íslandi var ávöxtun séreignasjóða sveiflukenndari en samt virðist stöðugleiki íslenskra séreignasjóða hugsanlega vera að aukast, þó ekki sé hægt að segja til um það með vissu.
En ef við skoðum nokkra mikilvæga þætti eins og ávöxtun sjóða, stöðugleika, líftíma og gengi á erfiðum tímum þá höfum við fjórar breytur sem allar segja nokkuð um það hvort viðkomandi viðbótarlífeyrissjóður er álitlegur valkostur eða ekki. Heildargagnasafn fyrir alla sjóði er á vefsíðunni