Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196

Ég er ríkið, en hvað með Þorstein Má?

$
0
0

Ekkert lát er á greftrinum sem vellur úr Samherjaæxlinu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í drottnunarkasti lét Lúðvík fjórtándi konungur Frakklands þessi orð falla. Hann var ósnertanlegur einræðisherra og skildi franskan almúgann eftir í örbirgð efir mikla persónulega auðsöfnun. Það leiddi síðar til frönsku byltingarinnar sem er grunnurinn að nútíma lýðræði! Það eru ekki nema rúmlega tvö hundruð á síðan. Pælið í því!

Allir þekkja kvótasöfnun Þorsteins Más án sanngjarns endurgjalds til þjóðarinnar. Og árásir sægreifans á Seðlabankann og Ríkisútvarpið. Og líka yfirlýsingar hans um að Már Guðmundsson fyrrverandi seðlabankastjóri sé á leið í fangelsi. Sægreifinn er nefnilega líka dómari! Og svo vita allir um skaðabótakröfu Samherjans gegn okkur almúganum upp á 330 milljónir króna. Samherji slapp nefnilega við óþægindi vegna þess að ákveðinn ráðherra páraði of seint á tiltekna reglugerð. Og núna er búið að leka tugþúsundum skjala um meinta manndáð Samherjans í Namibíu og víðar. Ekkert lát er á greftrinum sem vellur úr Samherjaæxlinu. Og meira nýtt á leiðinni að sögn Kristins Hrafnssonar hjá WikiLeaks.

Hinn sjálfskipaði dómari er ekki hættur. Nú rannsakar hann bara sjálfan sig í gegnum norskt firma. Þorsteinn er nefnilega marghamur: sægreifi, dómari og rannsakandi.

Ekki að furða að hin fleygu orð dúkkulísunnar Lúðvíks fjórtánda „Ég er ríkið“ hafi flogið um huga minn!

Sægreifinn á annað sameiginlegt með frönsku dúkkunni sem beitti almúganum stíft í vonlausum stríðum við Hollendinga og Þjóðverja. Sægreifinn notar starfsfólk Samherja í tilraun til að ávinna sér óverðskuldaða samúð. Á sama tíma koma fréttir frá Namibíu um að háttsemi Samherjans þar suður frá hafi tekið störf frá þúsundum þarlendra fátæklinga og eru áhrifin á innviði landsins eftir því! Samherjinn fyllir mann þjóðarstolti, svona svipað og þegar Ísland vann England á HM.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196