

Kné fylgir kviði og skal Birgitta dauðrotuð.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Nýlega upplýsti Rannveig Tenchi varaborgarfulltrúi
að hún væri hætt störfum fyrir Pírata vegna rotinna samskipta og eineltis.
Þetta kemur ekki á óvart. Svona hegðun blasir við þegar horft er á upptöku af
nýlegum átakafundi Pírata þar sem mannorð Birgittu var tjargað og fiðrað. Á
ferðinni var vel skipulagt og fullmótað einelti, hrein slátrun.
Núna er þingflokkur Pírata kominn í framlengingu.
Kné fylgir kviði og skal Birgitta dauðrotuð. Einn af öðrum hafa meðlimir
þingflokksins tjáð sig opinberlega og halda spörkin áfram.
Nýjasta árásin kemur frá Söru Elísu Þórðardóttur
varaþingmanni Pírata. Traðkar hún duglega á æru fyrrum vinkonu í
drottningarviðtali á Stundinni. Segir þar að Birgitta sé ofbeldiskona, lélegur
liðsmaður, öfundsjúk, trúnaðarbrjótur, niðurrífari, tortryggjari, drottnari,
frekja, sundrungari og ég man ekki hvað. Ekki er þetta falleg lýsing og lágt er
lagst í sorann.
Munnsöfnuður Söru Elísu og áberandi vanstilling er
henni til ævarandi vansa. Í siðuðum samskiptum ræða aðilar krytinn
milliliðalaust. Illmæli í fjölmiðli endurspeglar fyrst og fremst alvarlega
bresti í fari varaþingmannsins.
Er nú Sara Elísa viss um að hennar fyrrum vinkona og
fyrirmynd hún Birgitta geti ekki nefnt konkret dæmi um ósæmilega framkomu
varaþingmannsins. Sjálfur myndi ég ekki veðja gegn þeim möguleika! Í það
minnsta er Þór Saari fyrrum þingmaður ósammála Söru Elísu varðandi lýsingu
hennar á Birgittu. Segir hann framkomu varaþingmannsins ógeðslega.
Þessi frétt Sara Elísa varaþingmaður er galfantur birtist fyrst á miðjan.is.