

Pistill Vilhjálms verðskuldar margar athugasemdir, en ég læt tvær mikilvægustu duga.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Vilhjálmur Birgisson er ósáttur með vænkandi hag Landsvirkjunar í formi hærra raforkuverðs til Elkem á Íslandi og Norðuráls. Í pistli á Vísi 12. júní fær forstjóri Landsvirkjunar það óþvegið frá verkalýðsleiðtoganum.
Telur Vilhjálmur hærra raforkuverð sem ákvarðað var með gerðardómi geta orðið banabiti Elkem á Íslandi. Mat hans er að raforkukostnaður hækki um allt að 1,5 milljarða á ársgrundvelli. Á sama tíma hefur söluframlegð fyrirtækisins verið hálfur milljarður á ári að jafnaði síðustu tvo áratugina segir formaðurinn. Vilhjálmur fjallar aftur á móti ekkert um hækkandi launakostnað Elkem eftir kjarasamninga sem hann tók þátt í að gera.
Pistill Vilhjálms verðskuldar margar athugasemdir, en ég læt tvær mikilvægustu duga.
Sú fyrsta lýtur að eldgömlum afkomutölum sem Vilhjálmur styðst við. Að fara 21 ár aftur í tímann er vond latína. Markaðsaðstæður og verðlag úr fortíð eiga ekkert erindi. Vilhjálmur vill örugglega ekki semja um laun eins og þau voru fyrir tveimur áratugum. Horfa verður á stöðuna í dag og fram á við. Þannig eru góð fyrirtæki rekin og þannig eru verðmæti metin á markaði. Til útskýringar þá hefur verðlag hækkað um 155% síðan í maí 1998. Hálfur milljarður árið 1998 er sama og 1,3 milljarður á verðlagi dagsins í dag.
Svo má benda Vilhjálmi á að framlegð af sölu hjá Elkem á Íslandi var rúmir 8 milljarðar árið 2017. Það er 16 föld sú fjárhæð sem Vilhjálmur styðst við í pistli sínum.
Ágætt er að upplýsa að árið 2018 var allra besta rekstrarár í 114 ára sögu Elkem samstæðunnar að sögn Helge Aasen forstjóra fyrirtækisins. Þannig að raforkuverð á Íslandi er ekki að íþýngja samstæðunni.
Hin athugasemdin varðar tilhneigingu alþjóðlegra fyrirtækja að færa umsvif og hagnað til skattaskjóla með flóknum bókhaldsbrellum. Í gegnum til dæmis sýndarlán og háar vaxtagreiðslur er ábati færður frá upprunalandi til lágskattasvæða eins og Luxemborg, Holland, Írland og Hong Kong. Tilgangurinn er að sleppa við skattlagningu þar sem verðmætin verða til. Nýverið lagði til dæmis Evrópusambandið háa refsiskatta á Google og Apple vegna undanskota. Frakkar hafa áhyggjur og ætla að leggja á nýjan skatt á netumferð Google innan Frakklands. Skattleggja á hagnaðinn þar sem hann myndast.
Er ástæða til að halda að alþjóðleg fyrirtæki með starfsemi á Íslandi hagi sér öðruvísi. Það eru margir sem muna vel eftir hækkun í hafi þegar ÍSAL reyndi að komast hjá skattgreiðslum.
Meðal skulda hjá Elkem á Íslandi er skuld við móðurfélagið upp á 1,7 milljarða sem ber 9% vexti. Á alla mælikvarða eru hér á ferðinni mjög háir vextir. Undanfarinn áratug hafa heimsvextir legið í og rétt yfir 0%. Þetta endurspeglaðist í nýloknu skuldabréfaútboði ríkisins þar sem skuldabréfalán fékkst með 0,122% vöxtum. Há vaxtaprósenta Elkem á Íslandi veldur lækkun á skattstofni á Íslandi. Hagurinn flyst annað.
Meðal viðskiptakrafna Elkem á Íslandi er 11 milljarða rúllandi lán til móðurfélagsins sem bera enga vexti samkvæmt ársreikningi félagsins. Þetta veldur vaxtatekjutapi á Íslandi og lækkar skattstofninn. Hvar ætli hagurinn af þessu öllu lendi á endanum?
Aðaleigandi Elkem samstæðunnar er Bluestar Elkem International með aðsetur í skattaparadísinni Luxemborg með yfir 58% eignarhlut. Þar í landi borgast 1% skattur á tilteknar tekjur. Fyrirtækið er staðsett í lítilli skrifstofubyggingu ásamt miklum fjölda annarra alþjóðlegra fyrirtækja með enga starfsemi í Luxemborg. Byggingin varð þekkt í kjölfar LuxLeaks skandalsins árið 2017. Þetta er svona Tortóla uppsetning. Uppsetning blekkingar til að komast hjá skattgreiðslum í upprunalandinu.
Systur fyrirtæki Bluestar er síðan Bluestar Elkem Investment í Hong Kong þar sem enginn skattur greiðist á erlendar tekjur. Sami kínverski eigandinn er að báðum fyrirtækjunum, China National Bluestar Group.
Þessi frétt Vilhjálmur lemur á Herði forstjóra birtist fyrst á miðjan.is.