

Skúli sagði að honum hafi leiðst og því stofnað WOW air
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Skúli rauf þögnina með fyrirlestri á Startup Iceland. Mynti Skúli á loftbelginn sem vofraði yfir Reykjavík nýlega og nauðlenti á túninu hjá Höfða. Skúli á bara eftir að lenda.
Eftir reynslu sína af rekstri WOW air sagðist Skúli vera kominn með ígildi doktorsgráðu í flugfélagarekstri. Miklu fremur mætti halda fram að reynslan standi nær doktorsgráðu í dómgreindarleysi og ofdirfsku. Að eigin sögn ollu ákvarðanir hans og algjör skortur á yfirvegun brotlendingu félagsins. En þetta vissu allir.
Það voru aftur á móti ýmsar aðrar staðhæfingar hjá Skúla sem voru stórundarlegar eins og þessar:
- 1. Eftir fall WOW air þá er Icelandair komið með einokunarstöðu á flugi til og frá landinu. Skúla finnst augljóslega lítið til allra erlendu flugfélaganna koma sem fljúga til landsins. Líka Wizz air sem hann vildi renna inn í.
- 2. Skúli segir að það hefði verið skynsamlegast ef ríkið hefði bjargað WOW air og talaði hann um 7 milljarða inngjöf. Þetta er undarlegt. Fyrir það fyrsta þá hefði það verið brot á samkeppnislögum þrátt fyrir ákvæði í lögunum um fyrirtæki á fallandi fæti. Ef þetta skref hefði verið tekið hefði til dæmis Icelandair gert kröfu um sambærilega meðgjöf. Svo eru það mögulegar skaðabótakröfur frá erlendum flugfélögum á hendur ríkinu fyrir að raska frjálsri samkeppni.
- 3. Skúli sagði að honum hafi leiðst og því stofnað WOW air. Það var þá réttlæting. Má benda honum á strandveiðar ef honum fer að leiðast þófið þegar hann hefur lent sínum loftbelg.
- 4. Skúli sagði að ef hann kemur aftur að flugrekstri þá muni hann vera „lazer focused on cost“. Jamm og já segi ég nú. Í öllum rekstri, líka heimilisrekstri, þarf gott taumhald á útgjöld og sníða eftir tekjum. Þetta er það fyrsta sem kennt er í rekstrarnámi í menntaskóla. Betra er seint en aldrei hjá Skúla að kveikja á þessu eftir 30 ár í viðskiptum.
- 5. Ielandair fékk væna sneið í andlitið frá Skúla. Vændi fyrirtækið um að vera með of mikinn kostnað. Má ekki benda doktornum á að síðustu 10 ár hefur afkoma Icelandair verið heilt yfir ásættanleg á meðan WOW Air var flogið í þrot. Já, þetta skot Skúla kom úr glerhúsi.
Nýlega birtist viðtal á Vísi við Richard L Friedman. Þessi sem er að byggja klumpinn undir Mariott Edition hótelið við hlið Hörpu. Hann sagði að fall WOW Air hefði engin langtíma áhrif. Samsetning ferðamanna myndi aftur á móti breytast til batnaðar. Túristar með meiri fjárráð kæmu í auknu mæli. Já, glöggt er gests augað.
Þessi frétt Skúli rýfur þögnina! birtist fyrst á miðjan.is.