

Óánægður starfsmaður er skaðlegur öllum fyrirtækjum.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Samtök ferðaþjónustunnar kynntu nýverið hvernig fyrirtæki hygðust bregðast við kjarasamningum. Hagræðing í formi uppsagna er aðalatriðið. Næst á eftir eru áhyggjur af íslensku krónunni. Hér er á ferðinni kunnuglegur harmasöngur í kringum kjarasamninga. Barlómurinn var kyrjaður í síðustu kjarasamningum en hann reyndist ósannspár. Fór flest á annan veg en söngurinn spáði um. Söngurinn hefur misst trúverðugleika fyrir vikið og er orðinn að óvaelkomnu suði. Samt er haldið áfram með sama sönginn í yfirstandandi kjarasamningum. Sem betur fer hefur áheyrendum fækkað mjög.
Það er dapurt á það að hlusta að boðuð sé hagræðing í ferðaþjónustunni í tengslum við væntanlega kjarasamninga. Fyrirtæki eiga ávallt að vera á tánum og rekast á sem hagkvæmasta máta. Öðruvísi lifa þau ekki af. Samhangandi daglegum rekstri fyrirtækja er spurningin hvort starfsfólkið sé ánægt í starfi. Óánægður starfsmaður er skaðlegur öllum fyrirtækjum. Spurningin sem hefði átt að spurja í könnun ferðaþjónustunnar er hvort einstakir starfsmenn nái endum saman af daglaunum. Starfsmaður með endalausar áhyggjur af framfærslugetu sinni getur ekki talist ánægður. Fyriræki sem getur ekki mætt eðlilegum launakröfum á ekki tilverurétt.
Annaðhvort hættir fyrirtækið rekstri eða það þróast til að mæta eðlilegum launakröfum. Starfsmenn sem vinna á gólfinu eru ekki aukahjól undir vagninum. Þeir eru bæði nauðsynlegir og mikilvægir. Hagræðing á því að ná til fitunnar innan fyrirtækjanna, þ.e. til betur launaðra starfsmanna.
Engin atvinnugrein vex endalaust. Störfum í ferðaþjónustu fjölgaði um rúm 21% árið 2016, 6% 2017 og árið 2018 var vöxturinn í kringum 1.8%. Á sama tíma hefur störfum í fiskveiðum og fiskeldi fækkað um 7%. Sú atvinnugrein hefur gengið mjög vel.
Áhyggjur ferðaþjónustunnar af þróun gengis íslensku krónunnar er óþörf. Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa aukist um 20% frá árinu 2016. Á sama tíma hefur krónan veikst um 10-18% gagnvart helstu viðskiptalöndum ferðaþjónustunnar. Sú veiking kemur atvinnugreininni mjög vel. Þannig að hér er einhver misskilningur á ferðinni hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustunni.
Þessi frétt Barlómur ferðaþjónustunnar birtist fyrst á miðjan.is.