Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6186

Viðreisn boðar skattahækkanir

$
0
0

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hugmynd Daða Más er andvana fædd. Leiðir til skattahækkana og aukinnar ömurðar eldri borgara því þátttaka lífeyrissjóða í nýsköpun eykur líkurnar á lífeyrisskerðingum.

Í greininni Fjórða stoðin hjá Kjarnanum þá setur Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar, fram ultra áhættusækna skoðun þegar hann skrifar „Leita þarf leiða til þess að gera lífeyrissjóðum kleift að taka þátt í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja“.

Við heyrum reglulega fréttaflutning af nýsköpunarfyrirtækjum (startups) enda greiða þau á tíðum fyrir eigin umfjöllun. Minna er sagt frá því hvernig fyrirtækjunum reiðir af. Í ljósi áhuga varaformanns Viðreisnar að nota framtíðar framfærslueyri eldra fólks í uppfinningar og þróun þá er ágætt að skoða nýlega athugun á vegum Review42 um afdrif nýsköpunarfyrirtækja.

Um 90 prósent nýsköpunarfyrirtækja klikka, aðeins helmingur nær 5 ára aldri og 33 prósent verða 10 ára. Um 82 prósent fyrirtækjanna hætta vegna neikvæðs sjóðsstreymis og aðalástæðan þar að baki er ónæg eftirspurn eftir vörunni sem leiðir af nýsköpuninni. Það eru sem sagt aðeins 10 prósent líkur á jákvæðum árangri. Af þessum ástæðum þá þróuðust sérstakir stór áhættusjóðir, Venture Cpital Funds, til að bæta vinnubrögð í kringum nýsköpunarfjárfestingar. Árangurinn er þrátt fyrir það óviðunandi og fara 75 prósent nýsköpunarfyrirtækja með þannig stuðning á hausinn.  

Hugmynd Daða Más er andvana fædd. Leiðir til skattahækkana og aukinnar ömurðar eldri borgara því þátttaka lífeyrissjóða í nýsköpun eykur líkurnar á lífeyrisskerðingum. Það kallar síðan á aukna aðkomu ríkissjóðs til að vega upp framfærsluskerðinguna hjá þeim sem ná ekki lágmarks framfærslu. Framtíðar lífeyrir fólks er einfaldlega ekki sú tegund fjármagns að verjandi sé að nota í nýsköpun. Finna þarf aðrar leiðir til að örva íslenska nýsköpun og þá tel ég sjálfur farsælt að taka upp evru. Með svo traustan gjaldmiðil innanborðs þá myndi aðgangur að evrópsku og bandarísku nýsköpunarfé aukast. Þar sem upptaka evrunnar er stefnumál Viðreisnar þá ætti flokkurinn að leggja aukna áherslu á stefnuna og falast eftir samstarfi við Samfylkinguna í vegferðinni.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6186