„Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, varaði við því að horfið yrði aftur til gömlu byltingaleiðarinnar sem sögulega hefði leitt kjarabaráttuna í ógöngur.“ Þetta er hluti fréttar Fréttablaðsins í dag. Í Mogganum sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins: „„Ég trúi ekki öðru en fólk sýni yfirvegun og skynsemi þegar í alvöruna er komið. Að mínu mati eru ummæli formanns VR ekki af þeim toga.“
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og ræðumaður á baráttufundi verkafólks í gær, boðar hörð átök, t.d. skæurverkföll.
Ný forysta í stærstu félögunum ætlar að gera meira. Ragnar sagði meðal annars: „Við boðum baráttu sem hefur ekki sést í íslenskri verkalýðshreyfingu í áratugi! Við munum berjast fyrir kerfisbreytingum! Við erum að tala um baráttu gegn verðtryggingu og fyrir lækkun vaxta, breytingar á skattkerfinu með áherslu á hækkun persónuafsláttar, regluverk til verndar leigjendum. Við viljum lög á viðbjóðslega okurlánastarfsemi smálánafyrirtækjanna sem beina kröftum sínum kerfisbundið að þeim sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi. Heilbrigðiskerfið og þjóðarátak í húsnæðismálum! Það verður ekkert skilið eftir í okkar baráttu sem skiptir ykkur máli. Ykkar kröfur eru okkar baráttumál.“
Það er ljóst að forseti Alþýðusambandsins og forysta atvinnurekenda eru ósammála þessu. Ríkisvaldið, sem nú hefur tekið ljósmæður í bóndabeygju og þvingað þær til aukavinnu, mun ekki fagna nýjum og ákveðnum kröfum.
Framundan eru harðari átök en hafa sést í langan tíma. Hvorki Gylfi Arnbjörnsson né Eyjólfur Árni hafa mátt til að stöðva þá skriðu sem komin er af stað.
Sigurjón M. Egilsson.
Þessi frétt ASÍ og SA saman gegn nýrri forystu birtist fyrst á miðjan.is.