


Ríkar ástæður eru aftur á móti til að hafa áhyggjur af stöðunni og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Sigurður er einn af þeim sem lætur stundum illa í ummælakerfunum. Skrifar sjálfur aldrei greinar, enn er duglegur að blammera þá sem það gera. Hann kallar mig til dæmis bæði „kóna“ og „aula“ vegna þessarar greinar hér „Fornöldin á Fréttablaðinu“. Miðað við hans eigin ummæli þá styður hann nýfrjálshyggju. Svo öfgakenndur er hann að Bandaríkin eru sósíalískt ríki í hans huga. Sjálfur leiði ég ummælin oftast hjá mér, en það getur þó verið nauðsynlegt að mæta þeim þegar Sigurður setur fram hreina þvælu og staðleysu. Í greininni sem ég minntist á þá gerir hann lítið úr því mikla atvinnuleysi sem er á Íslandi. Hann sagði til dæmis orðrétt „En atvinnuleysi í augnablikinu er ekkert til að fara á taugum yfir því svipað ástand er í flestum nágrannalöndum“. Hrokinn hélt áfram og síðar sagði hann „Prófaðu að mæla atvinnuleysið eins og danir gera, þá líður þér kanski betur“ (stafsetningarvillur eru Sigurðar).
Sem sagt, Sigurður telur 13 prósent atvinnuleysi vera hjómið eitt og að staðan sé ekkert betri í Danmörku. Við þessu er bara eitt svar, að bera saman almennt atvinnuleysi í löndunum enda er það mælt með sama hætti á báðum stöðum. Almennt atvinnuleysi inniheldur ekki þá sem eru innan hlutabótakerfisins (sértækt atvinnuleysi) sem komið var á vegna kóvít-19 veirunnar. Eins og sjá má á myndinni sem fylgir þá er mikill munur á almennu atvinnuleysi. Á Íslandi þá stendur það í 11,6 prósentum á sama tíma og það er 4,4 prósent í Danmörku. Munurinn er svo mikill að ekki er tilefni til að gera lítið úr honum eins Sigurður gerir af miklum hroka. Ríkar ástæður eru aftur á móti til að hafa áhyggjur af stöðunni og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Til að hafa vaðið fyrir neðan mig þá setti ég mig í samband við Hagstofu Danmerkur og fékk nákvæmar útskýringar á því hvernig almenna og sértæka atvinnuleysið er mælt þar ytra. Hvað almenna atvinnuleysið varðar þá er skráningin sú sama í báðum löndum eins og áður segir. Hvað hlutabótaleiðina varðar þá hafa Danir ekki birt tölur af tæknilegum ástæðum enn sem komið er. Von er á þeim síðar á árinu, en mælingin er með sambærilegum hætti og á Íslandi. Af þessum ástæðum þá er engin ástæða til að halda einhverju fram út í loftið og blása í moðreyk eins og Sigurður gerir. Og það er alls ekki hægt að gefa sér fyrir fram að þeir sem eru í hlutabótakerfinu séu hlutfallslega fleiri í Danmörku enn á Íslandi. Þetta á bara eftir að koma í ljós. Hverjar sem tölurnar koma til með að vera þá stjaka þær ekki við tölum yfir almennt atvinnuleysi.

Kaldhæðnin er sú að Sigurður, sem telur allt vera á besta veg á Íslandi þrátt fyrir himinhátt atvinnuleysi og háa verðbólgu, býr sjálfur í Danmörku samanber skjáskot sem fylgir. Það er einfaldlega ekki mark takandi á svona manni, sem ætlar öðrum að búa við aðstæður sem hann sjálfur hefur flúið. Vaknar nú spurningin hver er kóni og hver er auli?