


Á Íslandi ríkir óstjórn, hagtölurnar ljúga engu í þessum efnum!
Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mikil eftirvænting var á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag. Vona var á nýjum tölum yfir smásölu í janúar. Tilhlökkunin stafaði frá nýjum stuðningspakka sem hóf göngu sína í byrjun árs. Eins og áður þá beindust aðgerðirnar að miklu leyti að eftirspurnarhlið hagkerfisins ólíkt því sem verið hefur á Íslandi. Í grófum dráttum þá fengu allir með tekjur undir 800 hundruð þúsund krónum á mánuði eingreiðslu upp á 78 þúsund krónur og aðra eins fjárhæð með hverju barni. Fjárstuðningurinn náði einnig til fólks án atvinnu og allra lífeyrisþega. Fólk utan kerfis var ekki skilið út undan. Eins og með fyrri stuðningspakkann þá lét árangurinn ekki á sér standa samanber myndin sem fylgir. Smásala jókst um 5,3 prósent eftir smávægilegan samdrátt þrjá mánuði þar á undan. Áframhaldandi aðgerðir á eftirspurnarhlið hagkerfisins virka strax og er atvinnuleysi komið niður í 6,3 prósent í Bandaríkjunum eftir að hafa toppað í 14,7 prósentum á síðasta ári. Heildar atvinnuleysi á Íslandi er aftur á móti að nálgast 13 prósent. Verðbólgan er einnig í hæstu hæðum á Íslandi og hvergi hærri í okkar heimshluta. Þökk sé bæði þróttlítilli krónu og alvarlegum mistökum við hagstjórn landsins.
Í stað þess að dæla peningum beint í fyrirtæki eins og Bláa lónið þá eru peningagreiðslur sendar beint til neytenda í miklu mæli.
Um miðjan mars þá mun stuðningspakki númer tvö fá á sig endalega mynd og verða afgreiddur frá landsþinginu í Washington. Eins og ég hef áður sagt ykkur þá stefnir í að allir atvinnulausir og lífeyrisþegar fái vikulegar viðbótargreiðslur upp á 52 þúsund krónur í sex mánuði og þeir sem hafa börn á sínu framfæri fá aðra eins fjárhæð fyrir hvert barn. Það verður seint sagt að Bandaríkin séu sósíalískt ríki, en stjórnvöld þar ganga mun lengra en þau íslensku (Seðlabanki og ríkisstjórn). Hér skiptir engu hvort repúblikanar eða dómókratar fara með völdin. Áherslan er sú sama.
Fókusinn í Bandaríkjunum er á eftirspurnarhlið hagkerfisins. Í stað þess að dæla peningum beint í fyrirtæki eins og Bláa lónið þá eru peningagreiðslur sendar beint til neytenda í miklu mæli. Á endanum þá kemur það ábyrgum og vel reknum fyrirtækjum vel í gegnum aukin efnahagsumsvif. Hér er það hegðun neytenda sem ræður úrslitum hvort fyrirtæki lifa eða fara undir græna torfu. Þessi leið þykir bæði sanngjörn og heilbrigð ólíkt því ráðslagi að stjórna út frá sérhagsmunum. Aðgerðirnar í Bandaríkjunum beinast ekki að því að bjarga fyrirtækjum sem voru á fallandi fæti fyrir veirufaraldurinn af ýmsum ástæðum. Aðgerðirnar beinast heldur ekki að því að binda vinnuaflið með vistarböndum við fyrirtæki í gegnum hlutabótaleiðir. Allt slíkt dregur úr hreyfanleika vinnuafls.
Hagfræðingar í Bandaríkjunum eru almennt sammála fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Janet Yellen, um að það sé dýrara að gera minna en meira. Þetta er í hróplegu ósamræmi við viðhorf stjórnvalda á Íslandi og boðskap Samtaka atvinnulífsins. Íslenska leiðin framkallar langvarandi og hátt atvinnuleysi og samkeppnishamlandi verðbólgu. Á Íslandi ríkir óstjórn, hagtölurnar ljúga engu í þessum efnum!