


Forsætisráðherra virðist hafa gleymt að aðrar þjóðir hafa einfaldlega gert betur og gengið lengra en Ísland til að vinna bug á spillingu.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Ótrúlega er það dapurt að hlusta á forsætisráðherra gera lítið úr versnandi stöðu Íslands á spillingarlista þjóða. Kemur hún í kjölfarið á fjármálaráðherra sem gerði einnig lítið úr málinu á Alþingi. Aðspurð á RÚV svaraði forsætisráðherra að niðurstöður Transparency International séu ekki sanngjarnar gagnvart þeim breytingum sem farið hefur verið í frá hruni. Forsætisráðherra virðist hafa gleymt að aðrar þjóðir hafa einfaldlega gert betur og gengið lengra en Ísland til að vinna bug á spillingu. Þessu til staðfestingar má benda á að Ísland var sett á hinn fræga gráa lista varðandi peningaþvætti.
Ráðherrann gleymir að þjóðin er ósátt við að sjávarútvegsráðherra hringi í forstjóra Samherja þegar Namibíumálið kom upp og spyrja hvernig hann hafi það. Já, og eftir að hafa sjálfur verið að dingla sér á skrifstofu Samherja akkúrat þegar Namibíugengið var statt þar. Tók alveg óvart í spaðann á öllum í framhjáhlaupi. Þjóðin er einnig ósátt við þá skipan að sérstakur vildarvinur Samherja fari fyrir Sjávarútvegsráðuneytinu. Og ráðherrann heldur einnig að Namibíumálið hafi engin áhrif á röðun landsins á þennan spillingarlista. Og það skiptir víst heldur engu máli að fyrrverandi forsætis- og núverandi fjármálaráðherra eru tengdir aflandsfélögum sem ekki var upplýst um né gefið upp til skatts. Og ráðherrann heldur að sala Landsbankans á eignarhlut í Borgun sé gleymt og grafið. Sala þar sem mikilvægum upplýsingum var haldið utan við ársreikning Borgunar þegar verðmat fór fram. Og ráðherrann heldur að fiskeldismálið fyrir vestan sé gleymt. Úrskurður nefndar um Umhverfis- og auðlindamál var núllaður út með einu pennastriki umhverfisráðherra VG til að koma sérhagsmunum í gegn á kostnað náttúrunnar.
Nú eða öll lekamálin frá lögreglunni.
Og áfram skal talið upp. Ráðherrann heldur einnig að framganga fjármálaráðherra þegar komið var í veg fyrir að prófessor Þorvaldur Gylfason yrði ritstjóri virts norræns fagrits hafi ekki gengið fram af fólki. Og ráðherrann heldur að ógagnsæ sala Seðlabankans á eignum frá hrunaárunum sé áhrifalaust. Ráðherrann heldur að umdeild breyting á veiðileyfagjöldum í sjávarútvegi sé þýðingarlítið. Og ráðherrann heldur að skipun fyrrverandi stjóra hjá hrunabankanum Kaupþingi í stól seðlabankastjóra trufli ekkert. Og ráðherrann heldur að öll hafaríin milli æðstu stjórnenda lögreglunnar liti niðurstöðuna ekki. Né launahækkun tiltekinna stjóra hjá embætti Ríkislögreglustjóra án lagaheimildar þar um sé gagnslítið í öllu spillingarmati. Nú eða öll lekamálin frá lögreglunni. Ráðherrann heldur líka að framganga hinnar brottreknu Hönnu Birnu í ráðherrastól þar sem upp kom bæði leki og lygi sé hjómið eitt. Og ráðherrann heldur að framganga núverandi fjármálaráðherra sem stakk tveimur skýrslum undir stól sé aukaatriði. Og ráðherrann heldur að upplýsingarskortur í tengslum við uppreist æru málið þar sem faðir fjármálaráðherra kemur við sögu sé gleymt og grafið. Heil ríkisstjórn féll vegna málsins.
Ég vissi ekki að Katrín Jak liti svona mildum augum á spillingarmál.
Já, listinn heldur áfram og ég er ekki farinn að minnast á þyrluflug dómsmálaráðherra eða eftirlitslausa endurbyggingu braggans í Nauthólsvík í Reykjavík. Þar þótti nauðsynlegt að flytja inn dönsk sandstrá fyrir skrilljónir því íslensk flóra dugði ekki í gælurnar. Svo er af ýmsu að taka við stjórn Kópavogsbæjar, en ég sleppi að telja meira upp. Í lokin kemst ég samt ekki hjá því að minnast á stærsta spillingarmál seinni tíma, Landsréttarmálið. Málið er jafn þekkt á hinum alþjóðlega vettvangi og Namibíumál Samherja. Já, og Katrín Jak talar bara um ósanngirni og skilur ekkert í versnandi stöðu landsins á spillingarlistanum á hennar eigin vakt. Ég vissi ekki að Katrín Jak liti svona mildum augum á spillingarmál.