Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6190

Fátækt fjármálaráðherra

$
0
0

Og af hverju má þetta ekki vera kosningamál, hræðist ráðherrann vilja kjósenda?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þegar kemur að einkavæðingu Íslandsbanka þá er það tilgangurinn sem helgar meðalið í huga fjármálaráðherra. Ekki hvort það er skynsamlegt eða tímabært að selja hlut í bankanum. Rök ráðherrans hafa einkennst af málefnafátækt og útúrsnúningum. Nýjasta útspil hans er Moggagrein þar sem hann birtir samanburð á opinberu eignarhaldi í bönkum sett í hlutfall við landsframleiðslu. Samanburðurinn segir manni í raun lítið sem ekkert. Svarar heldur ekki af hverju þarf að einkavæða Íslandsbanka. Sú staðreynd blasir við öllum að Íslandi tókst að vinna sig upp úr fjármálahruninu þrátt fyrir mikið opinbert eignarhald á fjármálakerfinu. Eignarhald sem hefur án nokkurs vafa átt sinn þátt í minni áhættu fjármálakerfisins. Það er eitthvað sem hefur smitað út frá sér yfir á önnur svið hagkerfisins. Einnig hefur það sýnt sig að íslenskir bankar eru nútímalegir og fylgja nýjustu straumum í fjármálaþjónustu þrátt fyrir mikið opinbert eignarhald.

Einkavæðingarfíkn fjármálaráðherra er þess valdandi að hann hefur ekki getað svarað því með gagnmerkum rökum af hverju það þurfi að rugga bátnum akkúrat núna þegar mikil efnahagsóvissa ríkir þrátt fyrir aukna bjartsýni vegna nýrra bóluefna. Hver á ávinningurinn að vera fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma litið er spurning sem liggur ósvöruð. Er ætlunin að stuðla að aukinni áhættusækni þar sem hagnaður fárra á að fá útrás? Og af hverju má þetta ekki vera kosningamál, hræðist ráðherrann vilja kjósenda?

Þau lönd sem ráðherrann valdi til samanburðar í grein sinni vekja hjá mér athygli. Þar er til dæmis að finna Grikkland sem seint verður talið vera vel rekið land. Bankakerfið stendur þar á veikum grunni. Á sama tíma þá sleppur ráðherrann að bera okkur saman við sterk bankalönd eins og Frakkland og Þýskaland eða Finnland. Kannski hentaði það ekki áróðrinum. Hann sleppir því einnig að minnast á Kína sem er með mikið opinbert eignarhald á bönkum. Land sem fór í gegnum faraldurinn á síðasta ári með hagvöxt og lítið atvinnuleysi á meðan Ísland er í samdrætti og með risavaxið atvinnuleysi. Þrátt fyrir annmarka ráðherrans þá ætla ég að elta val hans á samanburðar löndum. Ég kýs aftur á móti að varpa öðru ljósi á málið, sem ráðherrann hefur forðast að ræða.

Myndin sem fylgir endurspeglar hvernig samkeppnisumhverfið er á fjármálamarkaði. Þar er fjöldi banka settur í öfugt samband við mannfjölda. Sambandið segir okkur hversu mikið val neytendur hafa. Því lægri sem súlan er því meiri er samkeppnin og því ódýrari er fjármálaþjónustan. Þið sjáið að í Svíþjóð, Noregi og Danmörku er mun meiri samkeppni en á Íslandi (rauðu súlurnar). Ef ég hefði tekið tillit til þess að Grikkland, Holland og Belgía eru innan evrusvæðisins þar sem neytendur geta auðveldlega farið yfir landamæri til að fá bankaþjónustu þá hefðu súlurnar verið miklu lægri og hægra megin við gulu súlu Íslands. Eftir stendur að Ísland og Bretland búa við minnstu banka samkeppnina. Hér hefur það engin áhrif að opinbert eignarhald á bönkum er miklu mun minna á Bretlandi enn á Íslandi. Þannig að minna opinbert eignarhald stuðlar ekki sjálfkrafa að aukinni samkeppni. Hvernig bæta má hag neytenda í gegnum aukna samkeppni hlýtur að vera forgangs spurning sem verður að svara áður en einkavæðingarfíkn Sjálfstæðisflokksins er svalað.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6190