


Þetta er ljótt, auvirðileg framkoma af hálfu ríkis- og dómsvalds.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Í þessari grein hér „Héraðsdómari holar Umboðsmann Alþingis innan frá í nýju máli “ þá sagði ég ykkur frá því hvernig skipan héraðsdómara sem settur Umboðsmaður Alþingis væri að vinna skemmdarverk á embættinu. Að dómarinn væri kerfiskarl sem mótaði embættið með erfðamengi valdakerfisins, ríkis- og dómsvalds, þegar það á að vernda landsmenn fyrir valdníðslu hins opinbera. Núna var að falla úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur, þaðan sem settur umboðsmaður er fenginn, í máli Erlu Bolladóttur vegna kröfu hennar um að fá að yfirheyra rannsóknarlögreglumenn í Guðmundar og Geirfinnsmálinu. Kröfu hennar var hafnað. Lögmaður Erlu, Jónas Aðalsteinsson, sagði af þessu tilefni orðrétt í viðtali við RÚV „Það veldur mér sem lögmanni Erlu örðugleikum að fá rétta niðurstöðu í málinu ef að ríkið torveldar alla gagnaöflun. Og ríkið hefur reyndar gert það í þessu máli og öðrum sambærilegum og barist upp á líf og dauða. Augljóslega hefur ríkisstjórnin gefið lögmanni sínum fyrirmæli um að gera það“.
Þetta er ljótt, auvirðileg framkoma af hálfu ríkis- og dómsvalds. Erlu er meinað um að fá réttláta málsmeðferð fyrir hlutlausum dómstól sem er stjórnarskrár varinn réttur hennar. Þetta endurspeglar hversu heimskulegt það var af Steingrími J að velja héraðsdómara til að setjast í stól Umboðsmanns Alþingis þó umræddur dómari komi ekkert að málinu. Manni er ekkert minna en flökurt og finnur til með Erlu og lögmanni hennar. Spurningin er hvort settur umboðsmaður mun óska eftir skýringum af hverju ríkið situr á upplýsingum sem mótaðilinn telur sig þurfa á að halda? Tekið skal fram að það er ekki hlutverk UA að hafa eftirlit með dómstólum. Hann getur aftur á móti hafið frumkvæðisathugun gagnvart framferði ríkisins að liggja á upplýsingum.