Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196

Ólýðræðiskjörnir og leika sér með 1.000 milljarða króna

$
0
0

Aðgerðir bankans eru stórpólitískar og án aðkomu lýðræðiskjörinna fulltrúa. 

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Á tveimur stöðum í lögum um Seðlabanka Íslands stendur að bankinn eigi að varðveita gjaldeyrisvarasjóð Íslands, sem náði hæst í tæplega 1.000 milljarðar króna á árinu. Að varðveita er að passa upp á og táknar að sá sem sér um varðveisluna má ekki ráðstafa úr honum. Það er hlutverk ríkisstjórnar og Alþingis að taka ákvarðanir um þær ráðstafanir. Þrátt fyrir þetta þá hefur bankinn ekki hikað við að nýta varaforðann til að halda upp rangri gengisskráningu á krónunni með umfangsmiklum inngripum á gjaldeyrismarkaði. Svo miklum að bankinn er orðinn umfangsmestur allra á  markaði. Aðrir stórir markaðsaðilar eru tveir ríkisbankar og því í raun búið að ríkisvæða gjaldeyrismarkaðinn á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Ég hef ítrekað haldið því fram að hegðun bankans sé ólögmæt og sendi því fyrirspurn um á hvaða lagagrundvelli inngripin væru og hvort samráð hefði verið haft við ríkisstjórn. Hvað seinna atriðið varðar þá neitar bankinn samráði og segir bankann sjálfstæðan. Ég segi að með viðstöðulausum inngripum þá hefur bankinn stígið inn á hið pólitíska svið og getur ekki talist sjálfstæður né ópólitískur. Aðgerðir bankans eru stórpólitískar og án aðkomu lýðræðiskjörinna fulltrúa.  

Með inngripum þá er bankinn að fela ágalla krónunnar og hindra um leið pólitíska umræðu um myntmál þjóðarinnar.

Hvað fyrri spurninguna varðar þá segir bankinn í skriflegu svari að honum sé heimilt að taka lán til að eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði. Þetta vissi ég, en í heimildinni felst ekki leyfi til að nota forðann til að halda uppi fölsku gengi krónunnar. Það er hlutverk Alþingis að taka ákvörðun um ráðstöfun forðans. Tveir flokkar á þingi hið minnsta vilja draga úr áhættu hagkerfisins með því að vera hluti af stærra myntsvæði á sama tíma og fáeinir vitringar vilja halda landinu í heljargreipum örmyntar. Gjaldmiðils sem kastast til og frá þrátt fyrir öll inngrip. Með inngripum þá er bankinn að fela ágalla krónunnar og hindra um leið pólitíska umræðu um myntmál þjóðarinnar.

Bankinn sagði einnig í svari sínu að með notkun forðans þá gæti bankinn betur sinnt hlutverki sínu um verðstöðugleika. Það hefur alveg mistekist og stefnir verðbólga ársins í 4 prósent á meðan sama og engin bólga mælist hjá nágrannalöndum okkar.  

Mælt í erlendri mynt þá hefur nettó staða gjaldeyrisforðans minnkað um rúm 17 prósent frá áramótum eða um 124 milljarða íslenskra króna miðað við gengi dollarans í lok nóvember. Brúttó breyting nemur 9,5 prósentum. Nú þarf bankinn að skila ránsfengnum til baka með því að kaupa aftur gjaldeyrir fyrir krónur til að geta sýnt fram á í næsta ársreikning bankans að staða forðans sé óbreytt í erlendri mynt. Það kallar fram áframhaldandi veikingu krónunnar og auknar sveiflur. Að snúa stöðunni við næst ekki nema með umfangsmikilli krónusölu og það mun væntanlega ekki nást fyrir áramót. Bankinn mun þá væntanlega útskýra í næsta ársreikning, og þá í smáu atriðum, hvaðan heimild til að nota forðann er komin. Ef ekki þá hljóta þjóðkjörnir fulltrúar að leggja fram tæmandi fyrirspurn um málið á Alþingi. Það gengur ekki að ólýðræðiskjörnir aðilar innan bankans höndli með þetta öryggisnet þjóðarinnar án þess að búið sé að setja upp órjúfanlega Kínamúra, skýrar reglur og tryggja lögmæti notkunar forðans.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196