


Bara í síðustu viku komu upp tvö dæmi upp í Hæstarétti eins og Miðjan hefur fjallað um.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Til upprifjunar þá er hlutverk Umboðsmanns Alþingis lögum samkvæmt að starfa í umboði Alþingis í að liðsinna borgurum sem til hans leita og telja að hið opinbera hafi brotið á sér. Tilefnið er ærið og oft er um mikla persónu- og fjárhagslega hagsmuni að ræða af ýmsum toga. Má til dæmis nefna hvort Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menntamála hafi misfarið með skipunarvald sitt þegar hún skipaði flokksbróður sinn sem ráðuneytisstjóra. Málið er núna komið fyrir dómstóla.
Þegar maður skoðar heimasíðu Umboðsmanns Alþingis þá hefur hann nóg fyrir stafni, en hann þykir aftur á móti linur við að taka afdráttarlausa afstöðu í mörgum málum. Sendir allt of oft frá sér útvatnaðar niðurstöður sem skilur borgara eftir í lausu lofti. Þegar Róbert Spanó var settur tímabundið sem Umboðsmaður fyrir nokkrum árum þá þótti hann koma með ferska vinda inn í embættið. Hann skilaði gjarnan af sér þéttum niðurstöðum sem orkuðu ekki tvímælis. Hagur borgaranna var hans leiðarljós. Núverandi Umboðsmaður starfar aftur á móti meira í þeim anda að vera leiðbeinandi eða kennari. Sem slíkur sýnir hann opinberu valdi mikið umburðarlyndi. Margir úrskurðir hans staðfesta þetta og því spurning hvort hann starfi í raun á réttum vettvangi. Hinn fræðilegi vettvangur hentar honum kannski betur.
Ég skora á Alþingi að bæta hér úr hið snarasta.
Í tvígang á frekar stuttum tíma þá hefur Umboðsmaður Alþingis tekið sér leyfi frá störfum til að skrifa námsefni handa starfsfólki hins opinbera. Í bæði skiptin þá var héraðsdómari settur sem umboðsmaður tímabundið. Alveg burt séð frá því hversu vænn og hæfur sá er þá set ég stórt spurningarmerki við ráðslagið. Er það umboðsmanninum til framdráttar og bætir það ímynd hans um að vera verndari borgaralegra réttinda að starfandi dómari leysi hann af. Ég hef miklar efasemdir. Samkrull þarna á milli getur ekki verið af hinu góða og tel ég að Alþingi hafi gert grafalvarleg mistök að leita ekki út fyrir kerfið að aðila til að leysa umboðsmann af. Það hefur ekki farið fram hjá þjóðinni að dómstólar hafa sýnt af sér vafasöm vinnubrögð oftar en ég vil muna og haft hlutleysi dómstóla að vettugi. Bara í síðustu viku komu upp tvö dæmi upp í Hæstarétti eins og Miðjan hefur fjallað um.
Sú staða getur komið upp að aðili sem hefur leitað til Umboðsmanns þurfi að leita til dómstóla með sín mál sem settur Umboðsmaður hefur fjallað um. Þá gæti hinn sami hitt fyrir núverandi settan umboðsmann. Það er ekki gefið, eins og fordæmin úr Hæstarétti sýna, að hann meti sjálfan sig vanhæfan. Þannig að hann gæti dæmt í máli sem hann hefur fjallað um sem settur Umboðsmaður og komið þannig að málinu í tvígang. Það gengur gegn kröfu laga um að aðili geti áfrýjað svo annar aðili fjalli um sín mál. Segja má að margir líti á úrskurði umboðsmanns sem ígildi dóms. Ef hann ákveður að víkja sæti þá er hann samt sem áður í talsambandi við aðra dómara. Þannig að það lítur bara ekki vel út að verið sé að tengja embætti Umboðsmanns Alþingis svona saman við dómsvaldið. Hann er í raun samansúrraður kerfinu. Ég skora á Alþingi að bæta hér úr hið snarasta. Í löndum þar sem Umboðsmaður er starfandi þá er hann heilagur, hann er ótengdur valdakerfum eins og vera ber. Ég vona að það sé hægt að bjarga ímynd Umboðsmannsins með því að bregðast hratt við eða að settur umboðsmaður sjái þann kost vænstan að óska lausnar. Það gengur ekki að sami einstaklingurinn sé á báðum stöðum.