Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196

Hæstiréttur á gjöf að gjalda

$
0
0

Að mati réttarins þá er Arnfríður ekki undir neinum áhrifum frá eiginmanni sínum né mági.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Með tveimur nýjum dómum hefur Hæstiréttur nú staðfest áralangt álit þjóðarinnar að dómstólar landsins séu ekki hlutlausir eins og stjórnarskrá landsins kveður á um. Um er að ræða mál sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður áfrýjaði til réttarins. Telur lögmaðurinn að eiginkona Brynjars Níelssonar hún Arnfríður Einarsdóttir Landsréttardómari geti ekki talist uppfylla kröfur um huglægt hlutleysi gagnvart sér og skjólstæðingi sínum vegna vanstilltra ummæla Brynjars og bróður hans í sinn garð. Ummælin varða mál sem Vilhjálmur vann fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg með öllum greiddum atkvæðum, 17-0. Rifja má upp að málið fjallaði um ólögmæta skipun Arnfríðar í Landsrétt meðal annars vegna þess að Sigríður Andersen þáverandi dómsmálaráðherra færði eiginkonu Brynjars fram fyrir hæfari umsækjendur.

Að mati réttarins þá er Arnfríður ekki undir neinum áhrifum frá eiginmanni sínum né mági. Hún ku ekki stunda tjáningu við sinn ektamaka þegar áberandi þjóðfélagsmál bera á góma. Og hún fylgist auðvitað ekkert með tjáningu eiginmannsins á opinberum vettvangi. Svo aðskilin eru þau hjón og svo lítilfjörleg þykir útreið ríkisins í Strassborg vera að rétturinn lítur svo á að huglæg afstaða Arnfríðar til Vilhjálms hafi ekki raskast á nokkurn hátt. Arnfríður er víst svo vel úr garði gerð að mati réttarins að ekki ein óvilhöll hugsun hefur gert vart við sig í kolli Arnfríðar í garð lögmannsins. Og þegar Arnfríður var mætt til Strassborgar til að sýna sjálfum sér og Sigríði Andersen stuðning í verki þá var sko engin hiti í henni þegar hún hlustaði á málflutning Vilhjálms. Arnfríður er kona svo fullkomin og yfirveguð að aldrei verður vart við gáru í hennar kolli. Hún er víst alveg ónæm fyrir þjóðfélagsmálum samtímans og alveg sérstaklega málum sem tengjast henni persónulega.

Fara þurfti þekkta fjallabaksleið sem liggur um Valhöll við Háaleitisbraut.

Meðal dómara í málunum er okkar allra færasta fólk sem byggt hefur sinn frama á eigin verðleikum og engu öðru. Fyrst bera að nefna nýskipaðan dómara Ásu Ólafsdóttur, en hún var ekki meðal umsækjenda sem hæfnisnefnd mat hæfust til að fá skipun við Hæstarétt. Fara þurfti þekkta fjallabaksleið sem liggur um Valhöll við Háaleitisbraut til að skipa Ásu. Áslaug Arna ráðherra dómsmála átti ekki í vandræðum með það fjallaklifur. Fékk líkast til aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar við erfiðustu hryggina. Þá er það Björg Thorarensen, sem skipuð var á sama tíma og Ása, en fara þurfti Krýsuvíkurleiðina og yfir Brennisteinsfjöll til að skipa hana. Björg var eins og Ása ekki metin meðal hæfustu umsækjenda. Svo er það Ólafur Börkur Þorvaldsson, en hann var langt frá því að vera metinn hæfastur þegar hann var skipaður dómari í valdatíð frænda síns Davíðs Oddssonar. Sem sagt, okkar færasta fólk staðfestir að Arnfríður er sko ekki hlutdræg gagnvart Vilhjálmi. 

Sumir dómarar finna fyrir skyldurækni að dæma ríkinu í vil í hverju málinu á fætur öðru enda eiga þeir gjöf að gjalda. Eiga eigin lífsafkomu góðu tengslaneti að þakka frekar en nægjanlegri getu til að sinna dómarastarfinu af hæfni. Aðilar sem eru í færum til þess ættu að semja sig frá dómstólum, notast við gerðardóm og sneiða fram hjá spilltu dómskerfi. Svona er óspillta Ísland.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196