


Valdaþráin bar þau ofurliði og stefnuskrá flokksins var hent fyrir róða.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Enn og aftur á Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ómálefnalegu orðaskaki við þingmenn stjórnarandstöðunnar. Núna var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á vegi hennar, sem spurði af hverju Katrín Jak væri að mylja undir þá ríku með því að lækka skatta á peninga. Katrín svaraði orðrétt „Er það að hækka fjármagnstekjuskatt upp í 22 prósent, en vissulega endurskoða tekjustofn eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála, endilega dæmi um að mylja undir hina ríku?“. Af óútskýrðum ástæðum þá kaus Katrín að svara ekki eigin spurningu. Lét svarið dingla í loftinu um að að mögulega væri svarið nei. Svo er aftur á móti ekki.

Hvert mannsbarn veit að peningum og eignum er misskipt og ekki vegna mismunandi verðleika fólks. Spurning Þórhildar Sunnu var því réttmæt. Svarið er ekki síður áhugavert. Á mynd 1 má sjá hver áhrifin eru á afkomu einstaklings sem á 100 milljónir sem gefa honum 8 prósent arð fyrir skatta í 3 prósent verðbólgu. Raunskatthlutfallið lækkar úr 19,6 prósentum í 12,9 prósent. Skattgreiðslurnar lækka um 536.000 krónur á ári eða um tæplega 45 þúsund krónur á mánuði. Eins og alltaf þá eru um að ræða sjálfsagðar gjafir til séra Jóna landsins eða hitt þó heldur.

Ríkisstjórn Vinstri grænna er að mylja undir þá ríku.
Á mynd 2 má síðan sjá hvernig raun skatthlutfall peninga þróast allt eftir auknum peningahag. Hæst fer hlutfallið í 13,7 prósent þegar komið er í eign upp á milljarð króna. Því hærri sem eignin er því meira fær viðkomandi í skattagjöf mælt í krónum og aurum. Þannig að svarið við spurningu forsætisráðherra er já, ríkisstjórn Vinstri grænna er að mylja undir þá ríku. Greifarnir eru afar sælir með sitt. Á sama tíma þá finnst góða fólkinu rausnarlegt að hækka atvinnuleysisbætur um tæplega 18 þúsund krónur á mánuði tímabundið. Varanleg er hækkunin ekki nema 10 þúsund krónur á mánuði.
Þó Katrín Jak haldi því á lofti að skatthlutfall fjármagnstekna hækki í 22 prósent úr 20 prósentum þá talar hún aldrei um aðalatriðið. Fjármagnseigendur munu einungis greiða skatt eftir að búið er að draga verðbæturnar frá og taka tillit til frítekjumarks upp á 300 þúsund krónur á ári. Þetta veldur því að raunskatthlutfall peninga er að lækka um tugir prósenta, en ekki hækka eins og ráðherrann gefur til kynna. Í samhenginu þá er eðlilegt að krafa verði gerð um að eingöngu raunlaun verði skattlögð til að gæta samræmis milli tekjuforma.
Mér er til það efs að Katrín og Vinstri græn hafi vitað upp á hvað þau voru að skrifa þegar þau vildu ólm komast í ríkisstjórn. Valdaþráin bar þau ofurliði og stefnuskrá flokksins var hent fyrir róða.