Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6209

Lausatök ríkisstjórnarinnar losaralegri með degi hverjum

$
0
0

Núverandi valdhafar ráða ekki við verkefni dagsins enda elta þau úrelta stefnu Samtaka atvinnulífsins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Framsóknarráðherrann Ásmundur Einar Daðason sem fer fyrir velferðarráðuneyti í ríkisstjórn hefur ákveðið að bjóða atvinnulausum upp á þunnildi í matinn út næsta ár. Í upphafi var ákveðið að atvinnuleysislaun hækki um rúmar tíu þúsund krónur á mánuði um áramót, en síðan var ákveðið að hafa þunnildin kæst. Rúmum sjö þúsund krónum er bætt við tímabundið. Samtals, tæplega átján þúsund krónur. Katrín Jak forsætisráðherra lagði til kostulega útskýringu á gjörningnum er hún sagði efnislega að stóra verkefnið er að tryggja að atvinnuleysi verði ekki viðvarandi böl í íslensku samfélagi. Sem sagt, átján þúsund krónur á mánuði eiga að vega þungt hvað þetta varðar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að efnahagslíkanið sem ríkisstjórnin styðst við kemur úr smiðju höfundar Mikka mús.

Á myndinni sem fylgir ber ég saman þróun atvinnuleysis á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hagstjórnarmistök ríkisstjórnar Íslands birtist í því að íslenska græna línan er á hraðri uppleið á meðan rauða lína Bandaríkjamanna er á hraðir niðurleið. Á þessu er fyrst og fremst ein skýring. Bandarísk stjórnvöld eru með myndarlegar aðgerðir á eftirspurnarhlið hagkerfisins á meðan þau íslensku eru með athyglina að mestu á  framboðshliðinni. Strax í upphafi faraldursins þá voru atvinnuleysislaun þar vestra hækkuð um 330 þúsund krónur á mánuði í sex mánuð. Næsti pakki upp á 224 þúsund króna hækkun í aðra sex mánuði bíður frágangs þar vestra.

Árangursleysi íslenskra stjórnvalda er ekki bundinn við samanburð við Bandaríkin. Á mynd 2 er atvinnuleysi borið saman við stöðuna hjá nágrönnum okkar í Evrópu og á Nýja Sjálandi. Ísland turnar löndin og setur þar með ríkisstjórn Íslands í fallsæti. Það dugar ekki að bjóða atvinnulausum upp á þunnildi ef minnka á atvinnuleysi hratt og koma í veg fyrir viðveru þessa vágests.

Í þessu sambandi þá hefur veiking krónunnar ekki stuðlað að minna atvinnuleysi enda sambandið þarna á milli annað en áður var talið. Veikingin hefur eingöngu kallað fram aukna verðbólgu sem komin er yfir 4 prósent. Þar með hefur Seðlabanka Íslands mistekist hrapalega að halda bólgunni í skefjum ólíkt því sem gerist í kringum okkur. Niðurstaðan er þessi, núverandi valdhafar ráða ekki við verkefni dagsins enda elta þau stefnu Samtaka atvinnulífsins sem er úrelt. Kominn er tími á nýtt fólk með nútímalega þekkingu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6209