Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207

Ofbeldisfullt samband

$
0
0

Krónan veikist hraðar og verð hækkar örar en við höfum séð um langt skeið.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í þessari grein hér Dýr kredda Katrínar Jak & Co. þá sýndi ég ykkur fram á að veikari króna stuðlar ekki að minna atvinnuleysi, þvert á kreddu sérhagsmunaafla þar um. Kreddunni hefur verið beitt miskunnarlaust til að fá landsmenn til að sætta sig við verðhækkun innfluttra vara og tilfærslu á eignum frá neytendum til þeirra sem hagnast á veikari krónu. Höfðað hefur verið til samfélagslegrar ábyrgðar neytenda til að þeir sætti sig við kredduna.

Myndin sem hér fylgir sýnir náið samband milli krónunnar og verðbólgunnar síðasta áratuginn. Tímabilið frá janúar 2012 til janúar 2015 færði okkur stöðugt minni verðbólgu, sem hélst síðan nokkuð lág til ársloka 2019. Hvoru tveggja er í samræmi við verðþróun í vestrænum hagkerfum þó bólgan sé ætíð hærri á Íslandi. Hér hjálpar til að gengi krónunnar styrktist jafnt og þétt eftir að hafa veikst geipilega í kjölfar fjármálahrunsins. Það sem réð miklu um stöðugleika krónunnar voru viðvarandi rólegheit á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum með samsvarandi staðalfráviki. Fjölgun erlendra ferðamanna á síðan sinn þátt og skal ekki vanmetið. Fylgni milli gengis krónunnar og verðlags var plús 0,57 á tímabili línuritsins, en þetta gildi getur hæst orðið 1,0. Mæling upp á 0,57 samsvarar að gengið útskýri tæplega 33 prósent af verðbreytingum á hverjum tíma að öllu öðru jöfnu.

Verðbólgan er að éta sig með auknum krafti inn í áunnar launahækkanir um leið og ójöfnuður samfélagsins eykst.

Mikil breyting hefur nú orðið á þessu sambandi. Krónan veikist hraðar og verð hækkar örar en við höfum séð um langt skeið. Stefnir verðbólgan nú í 4,4 prósent yfir árið samkvæmt eigin spá. Fylgnin milli gengis krónunnar og verðlags hefur aukist og mælist rúmlega 0,78 það sem af er árinu. Veiking hennar útskýrir núna tæplega 62 prósent af hratt vaxandi verðbólgunni að öllu öðru jöfnu. Ef þetta væri samband milli manna þá væri sagt að sambandið væri orðið ofbeldisfullt þar sem neytandinn verður fyrir barðinu á krónunni. Verðbólgan er að éta sig með auknum krafti inn í áunnar launahækkanir um leið og ójöfnuður samfélagsins eykst.

Staða þeirra sem búa í evru hagkerfinu á Íslandi, til dæmis sjávarútvegurinn, er að styrkjast á kostnað neytenda sem eru með allt sitt í krónum. Mikið fé er að færast frá neytendum. Á sama tíma horfir ríkisstjórnin aðgerðarlaus á þróun mála. Eins og ég sýndi hér Jürgen Klopp væri núinn að skipta ríkisstjórninni út af“ þá hafa hin Norðurlöndin sem hafa eigin krónu staðið sig miklu betur en Íslendingar. Þar er atvinnuleysið mörgum prósentustigum lægra en á Íslandi. Krónur Dana og Svía eru stöðugar og verðbólga mælist vart í löndunum tveim. Norska krónan er einnig að spila miklu betra mót, en sú íslenska, með tilheyrandi betri hagtölum.

Að verðbólga sé meiri og vaxandi á Íslandi er eitthvað sem er afleiðing af meðvituðu vali ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands.

Að verðbólga sé meiri og vaxandi á Íslandi er eitthvað sem er afleiðing af meðvituðu vali ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands. Báðir aðilarnir hafa völd og tiltekið tæki til að vinda ofan af þróuninni hvað krónuna varðar og þannig geta þau stýrt verðbólgunni niður á við, en kjósa að gera ekkert. Um leið er verið að ráðast með ofbeldi að hagsmunum neytenda, sem halda hagkerfinu uppi.

Það eina sem Seðlabankinn hefur gert í þessum efnum er að grípa reglulega inn á gjaldeyrismarkaðinn, en inngrip virka í besta falli sem hraðahindrun. Inngripin breyta ekki stefnunni. Eina vitræna stjórntækið gagnvart krónunni nú um stundir liggur ónotað. Dapurt er að horfa upp á þróunina á vakt Vinstri grænna á sama tíma og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur brosa hringinn í eigin sérhagsmunagæslu. Neytendur munu aftur á móti tjá skoðun sína á aðgerðarleysinu í næstkomandi Alþingiskosningum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207