


Veiking krónunnar leiðir einnig til mikilla eignatilflutninga og aukins ójafnaðar í landinu.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Á meðfylgjandi mynd eru stýrivextir og verðbólga sett í samanburð við stöðuna hjá okkar helstu samkeppnislöndum. Íslenska verðbólgan turnar allan samanburð með stæl. Afleiðingin er að samkeppnisstaðan gagnvart útlöndum fer versnandi og veldur að öðru jöfnu auknu atvinnuleysi. Myndin sýnir einnig að íslenskir stýrivexti eru hærri en hjá viðskiptalöndum okkar svo um munar. Áhrifin eru þau sömu eða að verðbólga verður meiri vegna hærri fjármagnskostnaðar landsins.
Íslenska krónan er aftur á móti í verri málum.
Á myndinni er einnig að finna tölur frá Nýja Sjálandi vegna líkinda hagkerfisins þar við það íslenska. Löndin hafa sjálfstæðan gjaldmiðil, eru háð milliríkjaviðskiptum og ferðaþjónusta skiptir máli. Verðbólgan á Íslandi er rúmlega 2,3 sinnum hærri en hinum megin á hnettinum og stýrivextir eru 0,75 prósentu stigi lægri á Sjálandinu. Á þessu er ein meginskýring. Ný Sjálenski dollarinn nýtur almenns trausts á mörkuðum og hefur haldið stöðu sinni gagnvart helstu viðskiptamyntum á tímum kórónuveiru. Íslenska krónan er aftur á móti í verri málum og hefur til dæmis tapað 22 prósent af verðgildinu gagnvart evru frá því seint á síðasta ári.
Eitt af því sem skýrir frammistöðumuninn er að ný sjálenska hagkerfið er tæplega níu sinnum stærra, en stærð skiptir máli þegar markaðsaðilar áhættumeta hagkerfi. Íslenska krónan er örmynt og hefur það endurtekið sýnt sig að slíkum myntum er fórnað á viðsjárverðum tímum. Seðlabankinn býr yfir löglegu stjórntæki til að forðast þann efnahagslega kostnað sem slík fórn veldur. Hægt er að taka krónuna tímabundið af markaði vegna fordæmalausra aðstæðna.
Síðan vona ég að stjórnvöldum auðnist að taka krónuna af markaði.
Sá mikli og vaxandi munur sem er á verðbólgu milli Íslands og helstu viðskiptalanda er að stórum hluta vegna veikingar krónunnar. Hindra mátti þessa heimatilbúnu verðbólgu með því að taka krónuna af markaði í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn ef með þyrfti. Seðlabankinn og ríkisstjórnin kusu meðvitað að bjóða verðbólgudraugnum upp í dans. Veiking krónunnar leiðir einnig til mikilla eignatilflutninga og aukins ójafnaðar í landinu. Flutningarnir eru frá neytendum yfir til þeirra sem hagnast á veikingunni. Lauslegir útreikningar mínir sýna að á þessu ári og inn í miðja góu þá nemi eignatilfærslan um 230 milljörðum króna og bitnar mest á tekjulægri hópum samfélagsins. Svo bætist meira við í framtíðinni á meðan ástandið varir. Inn í útreikningana þá mæli ég ekki áhrif aukinnar verðbólgu á verðtryggð íbúðalán, en landsmenn þekkja þá sögu of vel til að ég þurfi að endursegja hana.
Ég tel að það hafi verið rándýr hagstjórnarmistök að leyfa krónunni að dingla á opnum markaði við ríkjandi aðstæður. Síðan bætir það gráu ofan á svart að hafa ekki farið með stýrivexti niður í núll prósent eins og Norðmenn, Svíar og evrulöndin. Ég tel hins vegar að seðlabankinn muni sjá ljósið og að stýrivextir verði lækkaðir á fyrsta fjórðungi næsta árs. Slík ákvörðun hefur kæliáhrif á verðbólguna við núverandi aðstæður í heimshagkerfinu. Síðan vona ég að stjórnvöldum auðnist að taka krónuna af markaði ef ekki á verr að fara hvað veikingu hennar varðar. Það er nefnilega ekki hægt að ganga endalaust á gjaldeyrisvaraforða landsins til að verja örmyntina. Það væri glapræði.