


Er einhver sanngirni fólgin í því að launþegar niðurgreiði rekstur útgerða með þessum hætti?
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Fjármálaráðherra landsins er ekki bara þjakaður af fordómum heldur kemur æ betur í ljós að hann er ósanngjarn með afbrigðum. Eins og bent var á hér á Miðjunni í dag þá segir ráðherrann aðspurður að ekki komi til greina að hækka veiðigjöld til að mæta skakkaföllum ríkissjóðs því veiðigjöldin eigi að byggja á sanngirni. Einmitt það hugsaði ég. Krónan hefur veikst um 22 prósent gagnvart evru frá því seint á síðasta ári sem eykur sölutekjur sægreifafyrirtækja á hvert selt fiskitonn samsvarandi. Og það án þess að þeir hafi þurft að hreyfa legg né lið. Á móti hækkar verð innfluttra vara vegna veikingar krónunnar. Sem sagt, það er verið að flytja fjármagn frá launþegum til sægreifa vegna veikingar krónunnar. Ég spyr, er einhver sanngirni fólgin í því að launþegar niðurgreiði rekstur útgerða með þessum hætti? Fjármálaráðherra landsins finnst svo vera af svari hans að dæma. Ritstjórinn Jónas Kristjánsson heitinn hikaði ekki við að kalla Sjálfstæðisflokkinn bófaflokk.