


Getur hann ekki bara sagt okkur strax hvenær Hekla byrjar að gjósa.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Brauðfætur Benjamíns og Samtaka atvinnulífsins molnuðu mélinu smærra í Kastljósþætti dagsins. Í þessari grein hér „Grillaður Benjamín og Bjöggi Halldórs“ sagði ég ykkur að röksemdir samtakanna um forsendubrest byggði á kanínu sem dregin var upp úr pípuhatti, en ekki efnahagslegum staðreyndum. Hann hefur haldið því fram, og byggir það á aumri spámennsku, að þrjú hundruð milljarðar séu horfnir úr hagkerfinu. Hann bætti um betur í dag og sagði að íslenska hagkerfið væri búið að missa þrjú hundruð milljarðar út úr hagkerfinu árið 2021. Já, hann sagði árið 2021. Hvað veit hann um hvað gerist á næsta ári? Ekki meira en ég og þú! Hann sagði einnig að aðrir svona milljarðar væru líka horfnir út úr hagkerfinu árið 2022. Getur hann ekki bara sagt okkur strax hvenær Hekla byrjar að gjósa.
Benjamín var svo sem ekki hættur í bullinu og sagðist vilja ræða við ASÍ um að launþegar láni fyrirtækjum komandi launahækkanir gegn vöxtum. Málið er að það er hlutverk banka að veita fyrirtækjum rekstrarlán. Í dag þá er vaxtarstig aldrei lægra og því einstaklega hagstætt að taka lánin og þangað á Benjamín að snúa sér. Skrautfuglinn hélt áfram og endurtók hugmynd að launþegar gæfu eftir lögbundin og áunnin lífeyrissparnað á næstu misserum. Þetta er náttúrlega ekkert annað en launalækkun, sem launþegar finna fyrir þegar kemur fram á efri árin.
Í þættinum þá heyrði ég hann aldrei tala um að fyrirtæki geti hagrætt, aukið eigin framlegð. Til dæmis að yfirstjórnendur sem þiggja milljónalaun lækki eigin laun niður í kennaralaun eða að eigendur endurgreiði oftekin arð fyrri ára. Nei, það má ekki hreyfa við aðlinum, en almúginn skal færa fórnir. Þessi skrautfugl er búinn að mála sig út í horn, fjaðrirnar eru fölnaðar. Annars er bara gott að frétta og góður gangur víða í hagkerfinu.