


Halldór Benjamín reynir ítrekað að klæða steiktu hugmyndirnar í ný jakkaföt.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Samtök atvinnulífsins eru eins og óværa úr fortíðinni, tala út frá úreltum hagkenningum, sérhagsmunum og kröfu um óheftan aðgang að ríkissjóði. Hinn veikburða framkvæmdastjóri Halldór Benjamín sagði nýverið að forsendur Lífskjarasamninga væru brostnar ólíkt afstöðu Alþýðusambands Íslands. Síðan bætti hann orðrétt við „Út úr hagkerfinu er horfnir þrjú hundruð milljarðar sem ekki var gert ráð fyrir og við því þarf að bregðast“. Talan er dregin upp úr hatti eins og hver önnur kanína enda byggir hún á spá sem samtökin lögðu fram í vor. Spáð var að samdráttur í landsframleiðslu yrði tíu prósent eða þrjú hundruð milljarðar króna. Með þennan veika grunn undir fótum þá vilja samtökin ekki standa við gerðan kjarasamning eins og hver annar samningsróni. Málið er að engin veit hvernig árið kemur til með að enda og víða er góður gangur í hagkerfinu. Ekki er réttlætanlegt að tíu prósentin dragi hin níutíu prósentin niður. Vogaraflið liggur á hinn veginn og geta níutíu prósentin dregið tíundina á flot. Dvergvaxinn tíundin getur ekki ráðið því að tugþúsundir launamanna verði bara af umsömdum launahækkunum. Slík niðurstaða kveikir ófriðarbál á vinnumarkaði.
Ályktun samtakanna endurspeglar algjört skilningsleysi á rót vandans, sem er minni eftirspurn en í fyrra. Út frá hagsmunum tíundarinnar þá er nær að standa við gerða samninga til að efla eftirspurn neytenda. Fyrirtæki munu njóta góðs af í gegnum aukna sölu. Margfeldisáhrifin munu flæða um atvinnulífið og meiri atvinna skapast. Í kjölfarið eykst hreyfanleiki vinnuafls, úr ferðaþjónustu yfir í aðrar greinar þar til betur árar í ferðaiðnaðinum. Ekki skal því gleymt að án eftirspurnar þá eru fyrirtæki verðlaus. Hugmyndir samtakanna ganga út á að dýpka og lengja niðursveifluna. Við það stækkar umrædd tíund í stað þess að minnka. Fer þá af stað niðursveiflu-spírall sem getur varað í áratug og rústað rekstrargrundvelli fyrirtækja og heimila. Á ferðinni er algjörlega viðbrennd afstaða, grilluð hagstjórnarhugsun.
Megin þorri félagsmanna getur ekki verið sáttur við þankagang samtakanna og hugsar eflaust hvort ekki sé tímabært að nýtt fólk taki við keflinu. Hleypa þarf fersku súrefni inn fyrir dyrnar í stað daunsins sem stafar frá rotnandi hugmyndum. Halldór Benjamín reynir ítrekað að klæða steiktu hugmyndirnar í ný jakkaföt, sem rifjar bara upp fróm orð hins ástsæla söngvara Bo Halldórs „ný jakkaföt, sama röddin“.