


Augljóst er að það gefur meira af sér fyrir ASÍ fólk að starfa hjá ríkinu en sveitarfélögum.
Jóhann Þorvarðarson skrifar.
Ég hef áður sagt ykkur frá því að samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum þá rennir það traustari stoðum undir hagkerfi ef launajöfnuður er aukinn. Hagvöxtur yrði meiri á hverjum tíma og atvinnuleysi minna. Áhugavert er því að skoða hvernig launadreifing er á Íslandi. Í þessari grein þá skoða ég dreifingu launa þeirra sem þiggja laun samkvæmt kjarasamningum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Bandalags háskólamanna (BHM). Tölulegar upplýsingar eru fengnar frá Kjaratölfræðinefnd.

Á mynd eitt sést hvernig laun innan ASÍ dreifast og er launajöfnuður í Reykjavík og hjá öðrum sveitarfélögum nokkuð mikill. Fimmtíu prósent launafólks ASÍ í Reykjavík er með laun undir fjögur hundruð þúsund krónum og engin er með laun yfir sex hundruð og fimmtíu þúsundum. Hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavík þá eru fimmtíu og sex prósent með laun undir fjögur hundruð þúsundum og níutíu og sjö prósent eru með laun undir sex hundruð og fimmtíu þúsundinu á mánuði.
Einkageirinn sker sig úr og sýnir mesta launaójöfnuðinn.
Hjá ríkinu þá er launajöfnuður minni en hjá sveitarfélögunum, laun dreifast meira um lárétta launaásinn. Fjörutíu og fimm prósent eru með laun undir fjögur hundruð og fimmtíu þúsund krónum og níutíu og þrjú prósent hafa laun undir sjö hundruð þúsundum. Afgangurinn er þar fyrir ofan. Augljóst er að það gefur meira af sér fyrir ASÍ fólk að starfa hjá ríkinu en sveitarfélögum.
Einkageirinn sker sig úr og sýnir mesta launaójöfnuðinn. Upp undir þrjátíu prósent ASÍ fólks er með laun undir fjögur hundruð og fimmtíu þúsund krónur og tuttugu og eitt prósent þiggur laun yfir sjö hundruð þúsundum. Mikill launaójöfnuður einkageirans veldur því að fleiri þiggja hærri laun en hjá hinu opinbera. Hægt er að halda því fram með einföldun að láglaunahópurinn eða þrjátíu prósentin haldi þeim sem eru á hærri launum uppi með því að þiggja sjálf lægri laun en ella.
Þegar kemur að háskólamenntuðu fólki þá eykst ójöfnuður til muna samanber mynd tvö. Reykjavík sýnir jöfnustu stöðuna og leggur þannig meira til styrkara hagkerfis en aðrir launagreiðendur. Á móti kemur þá greiðir borgin háskólamenntuðum að jafnaði lægri laun. Einkageirinn sýnir aftur á móti mjög mikinn ójöfnuð og endurspeglar það afar breytilegt gildismat gagnvart ólíkum menntasviðum. Slíkt gildismat getur byggst á neikvæðu viðhorfi gagnvart sumum menntasviðum og ólíkri samningsstöðu einstakra menntagreina. Svo er meiri eftirspurn eftir tilteknum háskólastéttum og þannig rekur þetta sig áfram. Að mínu viti þá er það bagaleg, jafnvel hættulegt, út frá samkeppnishæfni nútíma hagkerfa ef þessi launaójöfnuður leiðir til minni fjölbreytileika í menntun á vinnumarkaði. Einsleitni menntunar er óæskileg. Þetta er hægt að lagfæra með auknum launajöfnuði. Umrædd bláa lína endurspeglar skammtímahugsun og græðgi þeirra sem hafa komið sér í kjöraðstæður á almennum vinnumarkaði.
Bláa línan á mynd tvö tekur áberandi fjörkipp þegar laun eru komin yfir tólf hundruð þúsund krónur á mánuði og gula línan fyrir sveitarfélög önnur en Reykjavík eltir. Ég tel að hér fáist það staðfest að efsta lag stjórnenda er bæði fjölgandi og að soga æ meira til sín. Allt tal um að launahækkanir á neðri stigum launaskalans valdi höfrungahlaupi eða launaskriði dæmast rangar. Umræddur fjörkippur er eldsneyti höfrungahlaupsins. Út frá sjónarhóli hagfræðinnar og almannahagsmuna þá er þetta vond skipan og er það mikill ábyrgðarhluti að laga bjögunina.
Þeir sem tala gegn auknum launajöfnuði eru á sama tíma að kalla eftir hærri sköttum og sóun á efnahagslegum verðmætum í gegnum aukinn óstöðugleika hagkerfisins.