


Jerome Powel og félagar eru á öndverðu meiði við íslenska Seðlabankann og Sjálfstæðisflokkinn.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Seðlabanki Bandaríkjanna gaf í dag út endurmat á stöðu efnahagsmála þar í landi. Á mælikvarða bankans þá voru skilaboðin óvenju berorð, afdráttarlaus og kraftmikil. Bankinn áætlar að hagkerfið verði ekki komið í samt lag fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2023. Þar til þá áætlar bankinn að stýrivextir muni vera áfram í núll prósentum og peningaframboð tröllvaxið. Bankinn áætlar að verðbólga verði undir markmiðum á tímabilinu. Þar á eftir á að leyfa bólgunni að fara yfir markmiðið um lengra skeið eða þar til atvinnustig hefur náð því stigi að framleiðsluþættir hagkerfisins verði fullnýttir.
Eftirtektarverður árangur hefur náðst þar vestri í baráttunni við atvinnuleysið. Er það mat Jerome Powel seðlabankastjóra og peningastefnunefndar bankans að árangurinn sé ekki síst að þakka kraftmiklum og vafningalausum aðgerðum á eftirspurnarhlið hagkerfisins. Eins og ég hef oft skrifað um þá var gripið til nútímalegra aðgerða í hagstjórn þar vestra og atvinnuleysislaun hækkuð um 331 þúsund krónur á mánuði í fimm mánuð. Núna er önnur innspýtingu í burðarliðnum upp á 221 þúsund krónur á mánuði í aðra fimm mánuði. Jerome Powel og félagar eru á öndverðu meiði við íslenska Seðlabankann og Sjálfstæðisflokkinn. Báðir aðilar hafa lýst því yfir að ekki megi tímabundið hækka atvinnuleysislaun því Íslendingar séu svo latir. Það er ágætt fyrir þá sem sýsla með lífeyrir landsmanna að hafa þetta hugfast því bandaríska hagkerfið er aðal aflvél hagkerfa heimsins.