


Á þeim sex mánuðum sem lífeyrissjóðir landsins hafa setið á hliðarlínunni þá hefur byggst upp uppistöðulón af óuppfylltri erlendri fjárfestingarþörf.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Það virðist engin takmörk vera á vanþekkingu seðlabankastjóra landsins á gjaldeyrismörkuðum heimsins. Hann fegrar hlutina með óhaldbærum frásögnum eða setur fram fullyrðingar sem byggja á sandi. Þetta er miður. Ég væri fyrir löngu hættur að hlusta eftir því sem hann hefur fram að færa ef hann væri ekki seðlabankastjóri landsins. Virðist svo vera að þegjandi samkomulag sé um það í stjórnkerfinu að láta þetta viðgangast þó um sé að ræða rándýrar vitleysur. Hann er fús að tjá sig um gjaldeyrismál í þeirri von að hlustandinn kunni enn minni skil á efninu, en hann sjálfur. Og þannig virðist það vera innan stjórnkerfisins. Framganga seðlabankastjóra líkist sögunni um Nýju föt keisarans eftir H. C. Andersen. Er sú stund nú runnin upp að litla barnið hrópar „En keisarinn er allsber“.
Nakti keisarinn hefur nú veitt sitt annað breiðsíðuviðtalið hjá Fréttablaðinu á skömmum tíma. Þar eru blaðamennirnir, Hörður Ægisson og Þorsteinn Friðrik Halldórsson, ekki í hlutverki litlu dömunnar heldur kalla þeir eins og hirðfíflin í sögunni „En hvað nýju föt keisarans eru glæsileg og sitja vel og hvað slóðinn er stórkostlegur“.
Verið er að spila póker með varasjóðinn til að veita skammgóðan vermi.
Allt frá því að Covid-19 kom fram þá hef ég ítrekað talað fyrir því að eina raunhæfa úrræðið til að verja íslensku krónuna sé að taka hana tímabundið af markaði vegna fordæmalausra aðstæðna í heiminum. Seðlabankastjóri var með aðrar hugmyndir sem sannað hafa ógildi sitt. Annars vegar, að grípa til reglubundinna inngripa með beitingu varasjóðs landsins. Og hins vegar, að gera ólögmætt samkomulag (samráð um markaðstruflun) við lífeyrissjóði landsins um að fjárfesta ekki erlendis. Miðað við gærdaginn þá hefur krónan veikst um 22,1 prósent frá upphafi faraldursins gagnvart evru og verðbólga ársins stefnir á 4,5 prósent. Lífeyrissjóðirnir hafa áttað sig á að hið ólöglega samráðið gengur ekki upp og eru hættir í þessum sandkassaleik keisarans. Aðspurður segist keisarinn ekki hafa áhyggjur. Samt hefur hann ákveðið að opna varasjóð landsins enn meira en verið hefur til að mæta þörfum sjóðanna þegar þeir byrja erlendar fjárfestingar í næstu viku. Nú á að selja lífeyrissjóðunum 240 milljónir evrur fram til áramóta eða 40 milljarða króna. Þetta er akkúrat sú fjárhæð sem lífeyrissjóðir fóru með úr landi að jafnaði á 4 mánaða tímabili fyrir veirufaraldurinn. Þessi ráðstöfun kemur til viðbótar reglubundnum inngripum á gjaldeyrismarkað.
Sú aðgerð að opna hliðarmarkað fyrir lífeyrissjóðina nemur 5 prósent af gjaldeyrisforða landsins og 25 prósent af erlendri seðlaeign bankans. Litla stelpan í sögunni sér að keisarinn er meira en allsber, hann er glær í gegn. Úrræðið endurspeglar algjöra afneitun á stöðu mála og virkni gjaldeyrismarkaða. Á þeim sex mánuðum sem lífeyrissjóðir landsins hafa setið á hliðarlínunni þá hefur byggst upp uppistöðulón af óuppfylltri erlendri fjárfestingarþörf. Hún gæti reynst vera orðin 60 milljarðar króna. Þannig að 40 milljarða innlegg frá keisaranum gæti dugað skammt. Aðalatriðið er þó það að nú á að ganga hratt á þennan varasjóð þjóðarinnar án þess að nokkur trygging sé fyrir því að krónan veikist ekki meira á næstu misserum eða árum. Verið er að spila póker með varasjóðinn til að veita skammgóðan vermi. Ég tel að vandi okkar sem þjóð í myntmálum sé bundinn við ranghugmynd keisarans um að krónan geti plumað sig í ólgusjó alþjóðlegra gjaldeyrismarkaða með sífelldum stuðningi frá varasjóðnum. Ef halda á þessum skollaleik áfram til að geðjast keisaranum þá verður erlend peningaleg eign Seðlabankans uppurin eftir 16 mánuði eða um áramótin 2021 og 2022. Samkvæmt því sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin segir þá eru litlar líkur á að búið verði að þróa traust og öruggt bóluefni gegn Covid-19 fyrir þann tíma.
Það er grunnhyggni og óskhyggja að ganga út frá því að allt falli í fyrra horf á augabragði.
Keisarinn fullyrti í umræddu viðtali að núverandi lágt gengi krónunnar fáist ekki staðist miðað við eðlilegt efnahagsástand. Hann telur jafnframt ranglega eins og Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar gerir að eðlilegt ástand í ferðaþjónustunni komist á með leifturhraða um leið og ferðatakmörkunum verður létt. Þessar væntingar eru alveg órökstuddar enda byggir hún á óskhyggju um að heimurinn hafi ekki breyst. Engin getur svarað þeirri spurningu hvenær í framtíðinni þetta „eðlilega“ ástand kemst aftur á í heiminum og þar með ferðaþjónustan. Og engin getur svarað því hvort að þetta eðlilega ástand verði yfirhöfuð viðvarandi. Óeðlilegt ástand er einfaldlega komið til að vera þar til veiruskrattinn er lagður að velli. Hugsanlega lengur því stór hluti af vinnuafli heimsins verður án atvinnu yfir lengri tíma og kaupgeta þess hefur fengið á sig högg. Það geta því liðið mörg ár þar til bráir af. Í þessu sambandi má velta því fyrir sér hvort frétt vikunnar um að bakslag hafi komið í þróun bóluefnis hjá tilteknu alþjóðlegu lyfjafyrirtæki hafi farið fram hjá keisaranum. Svo er það spurningin um hvort ferðavilji fólks verði óbreyttur frá því sem var. Það er grunnhyggni og óskhyggja að ganga út frá því að allt falli í fyrra horf á augabragði. Pollíanna náði aldrei sömu hæð sjálfsblekkingar og keisarinn og Willum Þór þingmaður hafa náð.
Keisaranum er tíðrætt um að íslenskar hagstærðir réttlæti ekki alla þá veikingu krónunnar sem átt hefur sér stað. Í framtíðinni mun fjárflæðið vera inn í landið, en ekki út, alhæfði keisarinn. Þegar ég las þetta þá rifjaðist það snögglega upp fyrir mér þegar sami keisari spáði sjö sekúndur í fjármálahrun að fram undan væri betri tíð og skuldatryggingarálag bankanna myndi færast í eðlilegt horf. Það fór um mig hrollur við þá upprifjun.
Veiking krónunnar veldur miklum eigna- og tekjutilflutningi frá almenningi yfir til sægreifa.
Þetta með fjárflæðið þá eru fjárfestar heimsins að fara úr litlum myntum yfir í stórar myntir öryggisins vegna. Vilji er til að fórna allri arðsemi fyrir öryggið þar til þessi eðlilega tíð gerir vart við sig. Æ fleiri gera sér grein fyrir að við erum komin inn í langt skeið sem kallar á endurskipulagningu atvinnulífs og lífshátta í heiminum. Hér á Íslandi þá hafa erlendir fjárfestar verið að færa sig úr krónunni yfir í stórar myntir eins og evruna. Aðspurður á Stöð 2 hvað keisaranum þyki um mikla veikingu krónunnar gagnvart evru þá sagði hann svona til að afsaka krónuna að allar myntir heimsins hefðu veikst gagnvart evru eftir Covid-19. Þetta er enn önnur þvælan. Svo ég taki nú bara tvö dæmi þá hefur pundið styrkst á tímum veirunnar gagnvart evru og er að nálgast svipað gildi og við upphaf innrásar veirunnar. Ný Sjálenski dollarinn hefur styrkst um 5 prósent frá miðjum mars gagnvart evru. Ég hreinlega geri mér ekki grein fyrir því hvað keisaranum gengur til með rangfærslum sínum og að ætla að nota varasjóð landsins í pókerspil í kringum krónuna.
Hversu lengi á keisarinn að ganga um kviknakinn áður en forsætisráðherra grípur inn í, en bankinn heyrir undir hennar ráðuneyti, til að verja almannahagsmuni? Veiking krónunnar veldur miklum eigna- og tekjutilflutningi frá almenningi yfir til sægreifa. Svona eins og að þeir eigi ekki nóg fyrir. Veikingin er einnig að skapa verðbólgu sem étur sig inn í áunnar launahækkanir. Það er komið nóg af skrípalátum og það er ekki of seint að taka krónuna tímabundið af markaði. Fram undan er brimgarður óvissu á gjaldeyrismörkuðum heimsins.
Eftir að Seðlabankinn tilkynnti um að hafa opnað meira fyrir kranann á varasjóðnum þá bætti krónan við sig 2,65 prósentum í verðgildi gagnvart evru. Er hún kominn á sama stað og hún var á um miðjan júlí. Hún getur enn þá bætt við sig, en næstu misserin þá er veiking í kortunum. Af þessum ástæðum þá er gott tækifæri til að kaupa gjaldeyri á hagstæðu verði.