Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207

Fjármálaráðherra er heigull

$
0
0

Með öðrum orðum þá er þingið að ganga hér erinda einkafyrirtækis, sem er tæknilega gjaldþrota.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í þessari grein hérna „Willum Þór fær sitt spilavíti“ sagði ég ykkur frá því hvernig nýleg lagabreyting opnar fyrir að lífeyrissjóðir landsins starfræki stærstu rúllettu Evrópa, jafnvel veraldar. Uppruni frumvarpsins sem var lögfest síðastliðið föstudagskvöld (hvað annað) kemur úr ráðuneyti formanns Sjálfstæðisflokksins. Í því segir orðrétt „Frumvarp þetta er flutt fyrir tilstuðlan og í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið“. Fjármálaráðherra Bjarni Ben hafði ekki döngun í sér til að leggja sjálfur fram frumvarpið ásamt ríkisstjórn. Þá var nú gott að eiga hauk í horni í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þar situr helsti talsmaður spilavítavæðingar Reykjavíkur, Willum Þór Þórsson. Við hliðina á honum eru síðan framverðir sérhagsmunaafla landsins þau Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason, öll frá Sjálfstæðisflokki. Og þar við hliðina dinglar síðan fulltrúi Vinstri grænna, Ólafur Þór Gunnarsson.

Hvert var tilefni frumvarpsins? Í gögnum málsins segir „Tilefni frumvarpsins má rekja til þess að í fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair Group hf. er áformað að áskriftarréttindi fylgi seldum hlut“. Með öðrum orðum þá er þingið að ganga hér erinda einkafyrirtækis, sem er tæknilega gjaldþrota, og  gerð er meiriháttar stefnubreyting á lögbundnum starfsramma lífeyrissjóða landsins. Slíkt getur ekki annað en kallað á gagnrýna og rækilega umræðu innan sem utan Alþingsins. Spyrja átti fólkið sem á lífeyrissjóðina álits á efninu.

Hér vantar mikið upp á.

Nefndin hafði annað í huga og afgreiddi málið með flaustri á innan við sólarhring. Talað var við aðila frá ráðuneyti Bjarna Ben þar sem frumvarpið á uppruna sinn, aðila frá fjármálaeftirliti Seðlabankans og aðila frá Landssamtökum lífeyrissjóða. Hér vantar mikið upp á. Var til dæmis ekki rætt við fulltrúa launþegahreyfingarinnar né sérfræðinga utan kerfisins. Ekki tók betra við á Alþingi, sem afgreiddi málið einnig á innan við 24 klukkustundum. Fyrsta umræða stóð yfir í hálfa klukkustund. Lungann af þeim tíma nýtti Óli Björn í að kynna frumvarpið með óábyrgri sölumennsku. Smári McCarthy Pírati gagnrýndi frumvarpið málefnalega. Fleiri tóku ekki til máls. Önnur umræða tók heila eina mínútu þar sem Óli Björn las upp stuttan texta. Við aðrar atkvæðagreiðslu þá tók Jón Þór Ólafsson Pírati til máls og lýsti skoðun sinni á efninu og andmælti vinnubrögðum þingsins af þrótti. Þriðja umræða stóð einnig yfir í eina mínútu, en engin tók til máls. Önnur eins hroðvirkni í jafn mikilvægu máli á ekki að líðast. Sérhagsmunaöflin í Borgartúni 35 eru augljóslega með Alþingi í rassvasanum.

Hér að neðan má sjá hvernig atkvæði féllu eftir flokkum. Athygli vekur að Samfylkingin og Viðreisn skila auðu í málinu, greiða hvorki atkvæði né tóku til máls. Hvernig á að taka flokkana alvarleg. Eymdarlegra verður það ekki. Sérstaka athygli vekur að nýjasti þingmaðurinn Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir frá Viðreisn fellur eins og flís við hruflaða spítu Alþingis. Hún stendur ekki í lappirnar og tjáir sig úr ræðustól. Sleppir því síðan að greiða atkvæði í málinu. Nýju fólki fylgja oft ferskir vindar og ný vinnubrögð, en ekki tilfelli Þorbjargar Sigríðar. Hún er bara alveg laus við skoðun á þessu grundvallar máli. Hvað er hún að gera í vinnunni verður að spyrja? Jón Steindór Valdimarsson flokksfélagi Þorbjargar Sigríðar hafði þá skoðun að í lagi sé að lífeyrissjóðir reki eigin rúllettu. Viðreisn sem  kennir sig við nýja og ferska strauma er í raun bara skuggi fortíðar frá því fyrir fjármálahrun þar sem spilavítismenning ríkti innan bankanna.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207