Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196

Willum Þór fær sitt spilavíti

$
0
0

Sérhagsmunaöflin sem eiga heima í Borgartúni 35 fjarstýra Alþingi Íslands og ríkisstjórninni.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það er ekki nýtt að Willum Þór Þórsson þingmaður Framsóknarflokks vilji koma upp spilavíti á Íslandi. Árið 2014 þá lagði hann fram frumvarp á Alþingi öðru sinni um að heimila rekstur spilahallar. Réttlætingin var kjánaleg eða að erlendum ferðamönnum vanti afþreyingu í Reykjavík. Þrátt fyrir ekkert spilavíti þá fjölgaði ferðamönnum mikið. Þeir eru nefnilega að sækja landið heim af öðrum ástæðum en að tapa peningum í spilavíti. Willum Þór dó ekki ráðalaus þó frumvarpið hafi dagað uppi. Hann stóð að öðru frumvarpi, sem var lögfest síðasta föstudagskvöld.  Nú er lífeyrissjóðum landsins heimilt að stunda viðskipti með kaup-valrétti (Call options) á hlutabréf. Fyrir þá sem ekki þekkja þá snýst kaup-valréttur um að sá sem heldur á réttinum getur keypt hlutabréf í undirliggjandi fyrirtæki innan tiltekins tíma á fyrir fram ákveðnu innlausnarverði (strike price). Verð sem er hærra en markaðsverð þegar rétturinn er gefinn út.

Viðskipti með kaup-valrétti snúast eins og rúlletta fyrst og síðast um líkindi. Í rúllettu þá leggur spilarinn peninga undir með því velja sér tölur í von um hagnað um leið og viðkomandi fær spennuútrás. Strax í upphafi þá eru sigurlíkurnar umtalsvert  meiri hjá spilavítinu sjálfu, sem fara aldrei undir rétt rúmlega 50 prósent vinningslíkur. Þegar hjólinu hefur verið snúið og spilarinn tapar þá fær hann ekki annað tækifæri nema með því að leggja meira fé undir og þá er hjólinu snúið að nýju. Sigurlíkur spilarans eru iðulega mikið minni en spilavítisins, en það fer eftir því hversu stórtækur spilarinn er. Sama á við um kaup-valréttindi. Ef lífeyrissjóður kaupir sér rétt til að eignast hlutabréf á tilteknu verði í framtíðinni, til dæmis eftir 12-24 mánuði, þá fæst hann ekki án endurgjalds. Sjóðurinn þarf að leggja pening undir eins og í rúllettu. Því meiri sem áhættan er mælt í staðalfráviki verðbreytinga og því lengra inn í framtíðina sem samningurinn gengur því dýrari er rétturinn.

Óli Björn Kárason talaði nær eingöngu um hagnaðarvonina, en ekki áhættuna eða kostnaðinn  sem viðskiptunum fylgir. Það var óábyrg og ódýr sölumennska beint úr ræðustól Alþingis.

Framsögumaður frumvarpsins á Alþingi Óli Björn Kárason talaði nær eingöngu um hagnaðarvonina, en ekki áhættuna eða kostnaðinn  sem viðskiptunum fylgir. Það var óábyrg og ódýr sölumennska beint úr ræðustól Alþingis. Kynningin svipaði til þess þegar spilafíkill talar aldrei um það hvað hann er búinn að tapa miklu í spilakössunum, en er góðglaður að tala um staka vinninga sem honum heppnast að fá.

Sá sem selur kaup-valrétt á hlutabréf gerir það ekki nema hann hafi umtalsverðar sigurlíkur með sér. Annað væri heimskulegt. Þannig að þegar lífeyrissjóðir versla kaup-valrétt fyrir tröllvaxnar fjárhæðir þá eru vinningslíkurnar í upphafi gegn sjóðnum. Sem sagt, lífeyrissjóðurinn er að taka meiri áhættu gagnvart mótaðilanum alveg eins og spilarinn í rúllettu. Sjóðurinn byrjar með minni vinningslíkur. Tíminn leiðir síðan í jós hvort samningurinn kemst í hagnað (In  the money) eða ekki (Out of money) á samningstímanum. Í seinna tilvikinu þá er um sokkinn kostnað að ræða. Innkaupsverð kaup-valréttarins er tapað varanlega. Það lækkar síðan lífeyrir fólks og hækkar almennan fjárfestingarkostnað lífeyrissjóða.

Ef lífeyrissjóður er óöruggur með að fjárfesta í tilteknu hlutabréfi þá er hyggilegra að sleppa því alfarið í stað þess að versla kaup-valrétt. Það bjóðast alltaf önnur og öruggari tækifæri síðar því hlutabréfaverð hreyfast ekki línulega. Sjóðurinn getur einnig snúið sér að öðrum öruggari fjárfestingakostum vítt og breytt um veröldina, sem honum líður betur með. Lífeyrissjóðum ber til dæmis ekki skylda til að fjárfesta í flugfélagi, sem er einstaklega vond fjárfesting nú um stundir.

Inn í þetta fellur pólitískur þrýstingur.

Ein meginregla góðra fjárfestinga er að láta löngun eftir því að fjárfesta í tilteknu fyrirtæki ekki ráða för. Síðan á ekki að láta undan utanaðkomandi þrýstingi um að fjárfesta í þessu eða hinu. Inn í þetta fellur pólitískur þrýstingur. Umrædd atriði geta ekki verið grundvöllur fjárfestingarákvörðunar. Aðalatriðið er að lágmarka áhættu í sókn að arðsemi sem hæfir lífeyrissjóðum til að standa undir skuldbindingum til greiðslu lífeyris til sjóðfélaga. Farsæl leið er að líta alveg fram hjá fyrirtækjum með jó-jó áhættu. Áhættufíklarnir horfa þangað og nóg er til af þeim. Heimurinn er fullur að góðum fjárfestingarkostum og ekki þarf að velja þann áhættusamasta hverju sinni. Umrætt frumvarp var lögfest einungis til að auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta meira í jó-jó fyrirtækinu Icelandair Group. Lagabreytingin opnar aftur á móti um leið gátt til aukinnar áhættusækni þó öðru sé haldið fram og leiðir til aukins kostnaðar. Lagabreytingin er ámælisverð og Alþingi til háðungar. Sérhagsmunaöflin sem eiga heima í Borgartúni 35 fjarstýra Alþingi Íslands og ríkisstjórninni.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6196