Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207

Af hverju hlutabótaleiðin gengur ekki upp

$
0
0

Hækkun atvinnuleysislauna hefur víðtæk áhrif um allt land og á allar atvinnugreinar strax.    

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það fyrirkomulag að ríkissjóður borgi hluta af launum fyrirtækja sem orðið hafa harðast úti í Covid-19 faraldrinum er alls ekki ný af nálinni. Þjóðverjar hafa stuðst við þetta fyrirkomulag langt aftur á síðustu öld og nefna kerfið „kurzarbeit“. Frakkar þekkja þetta undir heitinu chomage partiel“. Bretar hafa verið að þróa sitt kerfi sem heitir eiginlega bara „three month programme“ og kaninn er með kerfi sem kallast „work sharing“. Hugsunin að baki úrræðinu gengur út á að aðstoða fyrirtæki að viðhalda ráðningasambandi við starfsfólk þegar óstjórnlegt utanaðkomandi áfall ríður yfir hagkerfið. Í upphafi þá var þetta hugsað fyrir sérhæfð störf, en hefur verið útvíkkað. Forsenda kerfisins er að áföllin vari í stuttan tíma. Galli þess kemur aftur á móti vel fram þegar málin dragast úr hömlu og fjöldinn á hlutabótalaunum verður mikill.

Í fjármálahruninu þáðu um 1,5 milljónir launamanna, aðallega innan fjármálageirans, í Þýskalandi hlutabætur í gegnum „kurzarbeit“. Í Covid-19 þá er fjöldinn kominn yfir 10 milljónir manna. Þannig að þetta er farið að reyna á ríkissjóð landsins. Athugun á vegum „Ifo Institute“ sýnir að 99 prósent veitingahúsa í Þýskalandi hafa nýtt úrræði „kurzarbeit“ og 97 prósent hótela. Úrræðið er einnig notað af fyrirtækjum utan ferðaþjónustunnar. Fyrr í sumar þá nýttu 50 prósent fyrirtækja í Þýskalandi úrræðið. Nú eru tvær grímur farnar að renna á ráðamenn þar ytra. Bæði vegna umfangsins og tilhugsunarinnar að afleiðingar Covid-19 muni vara mun lengur en upphaflega var áætlað. Í þessu samhengi þá er talið að hlutabótaleiðin aftri nauðsynlegri endurskipulagning atvinnulífsins og tefji fyrir að starfsfólk færi sig milli atvinnugreina. Einnig er að það getur ekki verið hlutverk hlutabóta að taka úr sambandi sjálfvirka hreinsara markaðarins varðandi vanfjármögnuð og illa rekin fyrirtæki. Það var aldrei tilgangurinn að ríkisvæða rekstaráhættu fyrirtækja. Annars væru ríkin farin að taka upp aðferðir kommúnistaríkja. Þessar áhyggjur eru í samræmi við það sem ég hef ítrekað sett fram í greinum hér á Miðjunni á umliðnum mánuðum.

Tilgangurinn var ekki að ríkisvæða rekstaráhættu fyrirtækja.

Til hvaða úrræða er þá hægt að grípa? Á sama hátt og bandarísk stjórnvöld hafa tekið að hluta til upp hætti Evrópulanda þá tel ég að Evrópuríki muni í auknu mæli fara þá leið að hækka atvinnuleysislaun umtalsvert og tímabundið. Það hafa Bandaríkjamenn gert með góðum árangri. Um leið færist fólk með formlegum hætti inn á almenna atvinnuleysisskrá og af sértækri skráningu. Þessi hagstjórnarleið mun bæði stjaka umsvifalaust við eftirspurnarhlið hagkerfisins og skapa strax ný störf utan ferðaþjónustunnar. Þar með eykst hreyfanleiki vinnuafls milli atvinnugreina. Hlutabótaleiðin tefur þessa tilfærslu og það er dýrkeypt fyrir ríkissjóð viðkomandi landa. Hinn ískaldi veruleiki er sá að ferðaþjónustan í heiminum mun ekki ná fyrri umsvifum á næstu árum og því þarf að efla aðrar atvinnugreinar til að draga úr atvinnuleysi. Fljótvirkasta leiðin er að hækka atvinnuleysislaunin. Stór byggingaverkefni á við Sundabraut tekur nokkur misseri og jafnvel nokkur ár að skila tilætluðum árangri. Síðan eru almenn áhrif þeirra takmörkuð og þau eru staðbundin. Hækkun atvinnuleysislauna hefur víðtæk áhrif um allt land og á allar atvinnugreinar strax.       


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207