Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207

Fjármálaráðherra er óábyrgur sölumaður

$
0
0

Hin ástæðan er að flugfélagið fékk 100 milljón dollara í skaðabætur frá Boeing vegna Max vélanna fyrr á þessu ári.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Á fésbókarsíðu fjármálaráðherra segir orðrétt í samhengi við mögulega ríkisábyrgð fyrir 15 milljarða króna lánalínu einkafyrirtækis „mér þætti það tíðindum sæta, í alþjóðlegu samhengi, að Icelandair hefði ekki þurft að leita á náðir ríkissjóðs fyrr og ekki með meira afgerandi hætti. Ýmis stærri og umsvifameiri flugfélög í Evrópu hefðu t.d. nú þegar þurft að leita til sinna stjórnvalda um lán eða hlutafé og mér fyndist þetta bera glöggt vitni um styrk Icelandair“.

Raunalegt er að sjá fjármálaráðherra stunda ódýra sölumennsku fyrir hönd einkafyrirtækis án þess að nefna mikilvæg atriði. Tvær höfuðástæður eru fyrir því að Icelandair hefur ekki með formlegum hætti leitað eftir ríkisaðstoð fyrr en nú. Sú fyrri er að ríkið setti það sem skilyrði að samið yrði fyrst við lánardrottna um skuldbreytingar. Niðurstaða hefur fengist í málið og vildu kröfuhafarnir ekki breyta skuldum í hlutabréf. Samþykkt var að veita 12-24 mánaða gjaldfrest á afborganir skulda. Hin ástæðan er að flugfélagið fékk 100 milljón dollara í skaðabætur frá Boeing vegna Max vélanna fyrr á þessu ári. Það eru hátt í 14 milljarðar á gengi dagsins. Þetta lagaði lausafjárstöðu félagsins annað hvort beint eða eftir að félagið seldi verðbréf þessu tengdu til síns viðskiptabanka. Síðan fékk félagið greitt um 5 milljarða króna vegna sölu á 75 prósent hlut í hótelkeðju félagsins. Samtals eru þetta hátt í 19 milljarðar króna sem fleytt hefur félaginu áfram.

Fram undan er gríðarlega hörð samkeppni.

Þriðja ástæðan er að ríkissjóður borgaði nokkur hundruð milljónir til flugfélagsins til að halda úti lágmarks farþegaflugi í gegnum fyrstu bylgju faraldursins. Öll þessi atriði löguðu lausafjárstöðuna tímabundið. Lausafjárhlutfallið stendur samt bara í 40 prósentum gagnvart skammtímaskuldum samkvæmt óendurskoðuðum 6 mánaða reikningsskilum. Rekstrarvandræði til framtíðar eru alveg óbreytt þrátt fyrir þessa lottóvinninga.

Í stað þess að veita ríkisábyrgð út á óraunsæjar væntingar þá væri það hreinna og þjónaði betur almannahagsmunum að ríkið gerðist hluthafi í félaginu og hæfist handa við að skipta um forstjóra og stjórn. Núverandi oddvitar félagsins hafa verið hluti af æðstu stjórn allt frá því að Björgólfur Jóhannsson flaug félaginu nánast lóðrétt niður. Taka þarf stórar stefnumarkandi ákvarðanir ef flughlutinn á að lifa af í einhverri mynd. Í því tilfelli þá sópa nýir vendir best. Fram undan er gríðarlega hörð verðsamkeppni vegna þess að það verður offramboð á flugsætum og alþjóðlegur ferðavilji er óviss. Þá standa ýmis flugfélög sem fljúga til landsins mun betur að vígi eins og nýliðin fortíð sýnir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6207