


Það er aldeilis ekki sama hver þú ert í þessum efnum.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Félagsmálaráðherra sagði í athugun væri að hækka atvinnuleysislaun í 318 þúsund krónur. Það hækkar ráðstöfunartekjur um 18 þúsund kall. Þetta breytir öllu hjá fólki sem er atvinnulaust og er að koma af mun hærri launum. Miklu auðveldara verður að framfleyta fjölskyldum og borga af lánum eftir svona ofrausn. Í mekka kapítalismans, Bandaríkjunum, þá voru atvinnuleysislaun hækkuð um 331 þúsund krónur í fimm mánuði og síðan um 221 þúsund krónur í aðra fimm mánuði til að bregðast við afleiðingum Covid-19. Úff hvað mig verkjar í hláturvöðvann. Plís Ásmundur ekki meira svona. Allavega ekki fyrr en eftir réttir og þegar pabbi þinn er búinn að færa fjárstofninn undir nýja kennitölu enn einu sinni.
Á undanförnum mánuðum þá er ríkið búið að moka 22 milljörðum króna til eigenda vildarfyrirtækja eins og Bláa Lónið í formi hlutabóta og launa í uppsagnarfresti. Til að ná því fram þá dugði ekkert minna en að eiginkona utanríkisráðherra sem er hluthafi í Bláa Lóninu skrifaði betli bréf beint inn til ríkisstjórnarinnar. Nú er í athugun að framlengja úrræðin til 1. júní næstkomandi svo elítan haldi nú áfram yfirráðum yfir fyrirtækjunum. Klanið má alls ekki missa völdin og það er aldeilis ekki sama hver þú ert í þessum efnum.