


Fyrirtæki sem er tæknilega gjaldþrota, ósjálfbært vegna lélegs reksturs.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Það er undarlegt að hlusta á örfáa milljóna karla tala eins og það sé bara réttur Icelandair að lífeyrissjóðir landsins fjárfesti áfram í flugfélaginu. Fyrirtæki sem er tæknilega gjaldþrota, ósjálfbært vegna lélegs reksturs. Það sem meira er þá hefur flugfélagið sýnt af sér samfélagslega ruddalega framkomu samanber til dæmis kjaraviðræður við Flugfreyjufélag Íslands. Þessir milljóna karlar hafa allir átt aðkomu að umdeildum og mjög vondum ákvörðunum í nýliðinni fortíð og sumir í nútíðinni hjá Icelandair. Þeir bera því beina og óbeina ábyrgð á verri stöðu flugfélagsins en ella vegna ríkjandi faraldurs. Fyrir vikið eru hinir sömu ekki hlutlausir ráðgjafar án hagsmuna. Þeir eiga umdeilt eigið orðspor að verja og tilheyra ríkjandi valdaklíku.
Milljóna karlarnir eru ótrúverðugir um leið og þeir eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum til að koma fölskum áróðri á framfæri. Barátta sem þessir milljóna karlar eru fulltrúar fyrir snýst meira um að sömu aðilar haldi völdum innan atvinnulífsins og í kringum Icelandair fremur enn að endurskipuleggja atvinnulífið með farsælum hætti. Hleypa nýjum aðilum að. Alls ekki er rætt um fortíð, nútíð og horfur Icelandair á málefnalegum grundvelli. Meira er um að stjórna áróðrinum eða þreyta fólk til sátta við glórulausa fjárfestingu.
Annað er falskur hræðsluáróður.
Mikilvægt er að lífeyrissjóðirnir og sjóðfélagar átti sig á því að staðan í dag er önnur en þegar engin flugfélög, nema kannski SAS, vildu fljúga til landsins. Nú keppast flugfélög um að fljúga til Íslands. Þegar WOW fór á hausinn á síðasta ári þá hélt íslenskt hagkerfi áfram góðri keyrslu og endaði árið með 1,9 prósent hagvexti. Á sama tíma héldu áróðursvélar tiltekinna aðila því ranglega fram að síðasta ár myndi enda í jafnvel mínus 9 prósent samdrætti. Sama er í gangi í dag, falskur áróður sem á greiðan aðgang að sömu fjölmiðlum. Ótrúlega svartar myndir eru dregnar upp til að sjokka fólk. Í þessu sambandi skal því ekki gleymt að önnur flugfélög skapa atvinnu á Íslandi og munu gera það í auknu mæli og samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Annað er falskur hræðsluáróður.
Vandinn sem við er að etja er sá að þeir sem eiga lífeyrissjóðina, launþegar, stjórna ekki eigin sjóðum nema til hálfs. Ýmis samtök atvinnurekenda tilnefna hinn helming stjórnarmanna sjóðanna. Sérhagsmunir hafa þar með áhrif á hvernig lífeyrissparnaði launþega er ráðstafað í misvitrar fjárfestingar. Þar til þessu verður breytt í þá veru að launþegar stjórni eigin málum að fullu þá verður þetta alltaf glíma við sérhagsmuni. Það er of seint fyrir þig að ætla að grípa í taumana þegar þú ferð sjálfur á eftirlaun og áttar þig á að þú ert að fá minna en áætlanir lofuðu. Tími aðgerða og tjáningar er núna.