


Hann stendur í stafni fyrir svona Trumpisma: meiri grimmd, minni mennska, enn meiri heimska og stigvaxandi yfirgangur sérhagsmuna.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Það er fyrir löngu hætt að vera undarlegt að hlusta á málflutning Halldórs Benjamíns hjá Samtökum atvinnulífsins. Hann nær iðulega að fanga athyglina af ómálefnalegum ástæðum. Hann stendur í stafni fyrir svona Trumpisma: meiri grimmd, minni mennska, enn meiri heimska og stigvaxandi yfirgangur sérhagsmuna. Hver ný tjáning leggst neðar en sú fyrri. Hann lagði blessun sína yfir að Icelandair hótaði Flugfreyjufélagi Íslands að semja við annað óstofnað stéttarfélag ef ekki yrði gengið að kröfum Icelandair. Flugfreyjufélagið var dregið aftur að borði sem á að heita samningaborð með gaddaól um hálsinn eins og gripir á leið í slátrun. Hótað var að annað hvort semji Flugfreyjufélagið samkvæmt kröfum Icelandair eða þá að viðkomandi geta étið það sem úti frýs í atvinnuleysi. Við borðið fóru ekki fram samningar heldur var hótuninni dinglað yfir hausamótum viðsemjenda. Þeim var gert alveg ljóst að milljóna karlar stjórna Íslandi.
Í lögum um vinnudeilur segir orðrétt „ Atvinnurekendum er óheimilt að hafa áhrif á vinnudeilur með uppsögnum úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn“. Halldór Benjamín telur sig og sína ekki þurfa að fara að þessum lögum enda helgar tilgangurinn meðalið þar á bæ.
Já, þeir eru margir steinarnir í glerhúsinu niður við Borgartún 35.
Nú býður svo við að Halldór Benjamín beinir spjótum sínum að forystufólki Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) vegna þess að samtökin sem Halldór Benjamín stendur í stafni fyrir telja sig eiga ráðstöfunarrétt yfir lífeyrissparnaði launþega landsins. Í þessu samhengi þá hefur verið kvartað til fjármálaeftirlits Seðlabankans yfir tjáningu VR varðandi mögulegrar eða ómögulegrar fjárfestingar Lífeyrissjóðs verslunarmanna í áhættufirmanu Icelandair. Talað er um að stjórnarmenn sjóðsins séu sjálfstæðir í sínum ákvörðunum og ekki megi beita þá skuggastýringu. Síðan er klukkað út og sagt að VR sé að brjóta lög í þessum efnum! Halldór Benjamín gleymir bara alveg að í landinu er stjórnarskrár varið tjáningarfrelsi og menn mega meira að segja skipta um skoðun. Einhver undirlög eða reglur núlla ekki út stjórnarskrána, sem er æðst allra laga í landinu. Já, þeir eru margir steinarnir í glerhúsinu niður við Borgartún 35.