Quantcast
Channel: Greinar – miðjan.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 6192

Einræðisherra með heljartök

$
0
0

Almenningur, sem ábyrgist lánin, á rétt á að vita stöðu mála fyrir næstu kosningar, en ekki að þeim loknum!

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Með nýju samkomulagi milli Fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka þá er bankanum ætlað að semja við lánastofnanir um framkvæmd og útfærslu ríkistryggðra stuðningslána. Um er að ræða ultra hagstæð lán til minni fyrirtækja vegna afleiðinga af Covid-19 veirunni. Útfærslan er þannig að almenningur ábyrgist að fullu lán upp að 10 milljónum króna til hvers fyrirtækis og síðan tekur við 85 prósent ábyrgð almennings á lánum upp að 40 milljónum auk vaxta. Fjörutíu milljarðar alls eru til ráðstöfunar.

Lánin verða afgreidd í gegnum lánastofnanir eftir forskrift úr lögum um stuðningslán, en með nánari útfærslu frá Seðlabankanum. Seðlabankinn stígur þar með út fyrir sitt lögbundna hlutverk og er byrjaður að stússast í lánastarfsemi til einkafyrirtækja í umboði Fjármálaráðuneytisins. Þetta fyrirkomulag býður upp á misnotkun. Því er nauðsynlegt að hafa hlutlaust eftirlit með lánunum. En hver á að sinna eftirlitinu?

Því gengur ekki að Seðlabankinn hafi eftirlit með sjálfum sér, er það?

Ef við förum aftur til ársins 2019 þá hefði svarið líklega verið Fjármálaeftirlitið, en frá og með síðustu áramótum þá rann eftirlitið inn í Seðlabankann. Því gengur ekki að Seðlabankinn hafi eftirlit með sjálfum sér, er það? Ríkisstjórnin kom aftur á móti með spillta lausn á vandanum.

Skipa á þriggja manna nefnd og tilnefnir forsætisráðherra einn, háskólastigið annan og Bjarni aðal þann þriðja. Þannig að ríkisstjórnin fer með meirihluta í eftirliti með eigin ákvörðun. Ofan á bætast víðfeðm vafningstengsl Bjarna því hann er allt um liggjandi í bankakerfinu. Sem fjármálaráðherra þá heldur hann á hlut ríkisins í Lands- og Íslandsbanka og ræður aldeilis miklu um hverjir sitja í stjórn bankanna. Og hugsanlega miklu um hverjir stjórna daglegum rekstri í gegnum Bankasýslu ríkisins. Í stjórn sýslunnar sitja nefnilega þrír og tveir eru handgengnir Sjálfstæðisflokknum: Lárus L. Blöndal og þingmaðurinn fyrrverandi Vilhjálmur „lítt menntaði“ Bjarnason. Samansúrrunin sýnir tök Bjarna frá öllum hliðum.

Ítök Bjarna í Seðlabankanum eru enn sterkari en menn halda.

Ítök Bjarna í Seðlabankanum eru enn sterkari en menn halda. Bjarni er nefnilega búinn að tilnefna hægri hönd sína hann Tómas Brynjólfsson í nefnd um fjármálastöðugleika. Þar situr Tommi besti vin, hlustar og grípur fram í. Tjáir sig eins og maðurinn sem valdið hefur. Þetta er svona Baldur og Konni uppistand þar sem Tomminn situr sem brúða.  

Bullið endar ekki hér því ríkisstjórnin áskilur sér rétt til að birta ekki nafnalista yfir fyrirtæki sem fá stuðningslán fyrr en að 12 mánuðum liðnum. Málið er að þjóðin á rétt á að vita fyrir næstu Alþingiskosningar hvort vildarfyrirtæki pólitíkusa hafa fengið óeðlilega fyrirgreiðslu í tengslum við stuðningslánin. Kjósendur muna vel að Bjarni Ben beið með að birta úrskurð Kjararáðs varðandi 40 prósent launahækkun þingmanna þar til eftir síðustu kosningar. Úrskurður sem hefði getað haft afdrifarík áhrif á niðurstöður kosninga.

Heljartökin bjóða upp á óheilindi við afgreiðslu lánsumsókna vegna skorts á Kínamúrum milli pólitíkusa og þeirra sem ákvarða um lánin. Almenningur, sem ábyrgist lánin, á rétt á að vita stöðu mála fyrir næstu kosningar, en ekki að þeim loknum!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 6192