


Bless bless Sjálfstæðisflokkur, þinn tími er liðinn. Þó fyrr hefði verið segja allt að 80 prósent kjósenda.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Gunnar Smári var með vel tímasetta ádrepu nýlega. Minnti okkur á að nútíma hagstjórn snýst um eftirspurnarstýringu, en ekki niðurskurðarveiki sem hrjáir Sjálfstæðisflokkinn. Íhaldsflokkurinn á Bretlandseyjum er að yfirgefa mislukkaða niðurskurðarstefnu (austerity) sem holað hefur innviði landsins og taka upp skandinavíska hætti. Við tekur eftirspurnarstýring. Í farvatninu er myndarleg fjárfesting í grænum verkefnum á sviði samgangna. Mikið verður fjárfest í betri menntun og húsnæði fyrir alla svo fátt eitt sé nefnt. Skapa á heilbrigðan kaupmátt og jarða barlóm að hætti Hræsnarasamtaka atvinnulífsins. Úreltar hugmyndir formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins um niðurskurð eru komnar á sorphaugana, komast ekki einu sinni í endurvinnslu svo heimskulegar eru þær.
Nútíma hagstjórn í gegnum eftirspurnarstýringu stuðlar að sjálfbærari hagvexti, stöðugra atvinnustigi og auknum félagsauði þjóða. Neytendum verður fært aukið vald í gegnum kauphegðun sína um hvaða fyrirtæki blómstra og lifa. Stjórn hagkerfa í gegnum eftirspurnarhliðina mun svo draga úr fátækt og ójöfnuði, sem er eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn vill alls ekki sjá. Sá tími að vera með framboðsstýringu í gegnum ráðabrugg í lokuðum bakherbergjum þar sem fáir og óvitrir koma saman tilheyrir öskuhaugum hagsögunnar. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur kveikt í þessum hugmyndum og jarðað öskuna í næsta duftgarði þarna í Washingtonborg. Að sögn kunnugra ku enginn leggja blóm á leiðið því enginn er syrgjandinn. Hér er því upplagt tækifæri fyrir Valhallarfálkana að efna til pílagrímsferðar til borgarinnar og leggja íslenskan njóla á leiðið.
Hér á landi þá er kominn tími á ferska og nútímalega hugsun. Í því samhengi þá er gleðilegt að stutt í þingkosningar. Verða þá nýir vendir kosnir enda sópa þeir best. Bless bless Sjálfstæðisflokkur, þinn tími er liðinn. Þó fyrr hefði verið segja allt að 80 prósent kjósenda. Úff hvað það er bjart fram undan hjá almenningi. Frábært kosningavor er í vændum!
https://www.midjan.is/boris-johnson-hefur-ekki-tru-a-stefnu-bjarna-og-thordisar-kolbrunar/