

Barátta Þorvaldar Gylfasonar fyrir réttlæti hefur því verið sérstök ógn við Sjálfstæðisflokkinn.
Andrés Magnússon læknir skrifaði grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag.
„Þorvaldur Gylfason er einn þeirra fáu íslensku prófessora sem hafa sinnt þeirri skyldu sinni sem akademiker að vekja athygli á brestum í lýðræði síns heimalands. Fyrir það hefur hann hlotið óþökk valdamanna en vinsældir almennings. Svo miklar vinsældir almennings að hann hlaut langflest atkvæði allra frambjóðenda til stjórnlagaþings árið 2010. Þorvaldur hefur reynt að halda sig utan við alla flokkspólitík, nema eitt sinn var hann um skamma hríð í litlum stjórnmálaflokki sem vann að því að fá stjórnvöld til þess að standa við að löggilda þá stjórnarskrá sem þjóðin hafði kosið sér,“ skrifar Andrés.

Sjálfstæðisflokkurinn er einnig sá flokkur sem myndi mestu tapa ef völd stjórnmálaflokka yrðu tempruð eins og hin nýja stjórnarskrá kveður á um.
Andrés heldur áfram: „Þorvaldur hefur fyrst og fremst beitt sér fyrir tveimur þjóðfélagsmálum: að eðlilegt verð fáist fyrir kvótann og að hin nýja stjórnarskrá, sem færir völd frá stjórnmálaflokkum til almennings, verði fullgild. Núverandi kvótakerfi hefur fyrst og fremst verið viðhaldið af Sjálfstæðisflokknum og útgerðarmenn í staðinn viðhaldið Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig sá flokkur sem myndi mestu tapa ef völd stjórnmálaflokka yrðu tempruð eins og hin nýja stjórnarskrá kveður á um. Barátta Þorvaldar Gylfasonar fyrir réttlæti hefur því verið sérstök ógn við Sjálfstæðisflokkinn.“
Rétt eins og Jóhann Þorvarðarson gerði í góðri grein hér á Miðjunni, skoðar Andrés fortíðina:
Halldór Laxness var, eins og Þorvaldur Gylfason, óhræddur við að segja skoðanir sínar á því sem honum fannst vera misbrestur á í íslensku þjóðfélagi. Halldór var engu íslensku fjármálavaldi háður af því að bækur hans seldust í bílförmum í BNA. En skyndilega snarhættu bækur hans að seljast þar. Skýringin kom ekki í ljós fyrr en löngu seinna.
Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafði gengið á fund bandaríska sendiherrans á Íslandi og beðið um að þessu yrði komið um kring. Sjötíu árum síðar er Þorvaldi Gylfasyni veitt launað embætti erlendis, en skyndilega er þeirri ákvörðun snúið við. Aftur kemur í ljós að þetta er runnið undan rifjum íslenskra stjórnmálamanna sem beita áhrifum sínum erlendis. Sama fláræðið, sama valdbeitingin, sami flokkurinn, sama ættin, sama nafnið.“