


Þetta er jafn dapurt og ef ákveðið væri að tilteknar fimm fjölskyldur í landinu fengju yfirráð yfir Landsvirkjun til jafn langs tíma.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Þorsteinn dúkkaði óvænt upp í fréttum Stöðvar 2 í vikunni. Tilefnið var milljarða gjafir Samherjamanna til barna sinna. Þorsteinn er eðlilega ósáttur og lagði til tímabundinn afnotarétt að fiskveiðiauðlindinni. Þetta hljómaði vel í eina sekúndu því hann bætti við að yfirráðarétturinn ætti að vera til 25 ára. Það er það sama og að gefa fiskveiðiauðlindina, alveg fráleit hugmynd. Þetta er jafn dapurt og ef ákveðið væri að tilteknar fimm fjölskyldur í landinu fengju yfirráð yfir Landsvirkjun til jafn langs tíma. Þær borguðu síðan smánargjald fyrir yfirráðin yfir fallorkunni og hirtu sjálf gullgróðann.
Aðrar atvinnugreinar á Íslandi og erlendis búa ekki við svona fáránlega meðgjöf eða fyrirsjáanleika sem 25 ára úthlutun veitir. Allir búa við óvissu, það er norm í fyrirtækjarekstri. Sjávarútvegurinn á ekki að fá einhverja sérmeðferð! Þorsteinn Pálsson var langt frá sínu besta í þessu viðtali. Hann hefur látið einhverja sérhagsmunaaðila blinda sig með ótraustum útreikningum. Hugmynd Þorsteins er næg ástæða til að kjósa ekki Viðreisn. Þjóðin vill að fiskkvótinn fari á uppboðsmarkað til að hámarka tekjur þjóðarinnar.