


Báðir dómararnir hljóta að draga sig í hlé á meðan þetta mál er til meðferðar upp í Hæstarétti, of mikið er í húfi að þau starfi óáreitt áfram.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Mogginn birti frétt á laugardaginn um að Landsréttardómararnir Hervör Þorvaldsdóttir og Aðalsteinn Egill Jónasson hafi verið úrskurðuð vanhæf í tveimur dómsmálum er varðar gengistryggð lán hjá Landsbankanum. Þetta er ekki nákvæm lýsing hjá Mogganum. Nákvæm lýsing er að Hæstiréttur hefur spilað út hvítum hrafni og fallist á áfrýjunarbeiðni í málinu og að taka dóm Landsréttar til efnislegrar meðferðar. Síðan segir Mogginn orðrétt „Meðal þeirra röksemda sem lagðar voru fyrir í málskotsbeiðnunum var meint vanhæfi dómara við Landsrétt. Annars vegar að sami dómari hefði dæmt mál um sama lánssamning fyrir bæði héraðsdómi og Landsrétti. Hins vegar að annar dómari hefði starfað sem lögmaður Landsbankans og gætt réttar hans í málum sem vörðuðu sama sakarefni og verið ráðgefandi fyrir bankann í gengistryggingarmálum.“ Af þessu tilefni þá leiðrétti ég jafnhliða eigin grein um sama mál hér á Miðjunni.
Að þessum orðum sögðum þá tel ég að um bitamun sé að ræða en ekki fjár. Samkvæmt Stjórnarskrá landsins þá eiga allir rétt á málsmeðferð fyrir hlutlausum dómstól og þá reynir mikið á að dómarar gæti að eigin hæfi. Þá gengur ekki að viðkomandi dómarar hafi átt aðkomu að málum á fyrri stigum eða áður en í dómsmál er komið. Á þetta skorti í alvarlegum atriðum hjá umræddum Landsréttardómurum að mati málsaðila og þetta vill Hæstiréttur skoða ásamt fleiru.
Túlka þarf hlutleysiskröfuna mjög strangt.
Eins og segir í leiðréttingu Moggans þá dæmdi Hervör Þorvaldsdóttir í þessu tiltekna máli bæði í héraði og fyrir Landsrétti. Þarna sýndi Hervör dómgreindarskort og fyrirlitningu gagnvart hlutleysiskröfunni sem Stjórnarskráin gerir til dómstóla. Tilgangur áfrýjunar er einmitt að fá annað álit á því deilumáli sem uppi er. Svona eins og þegar læknir segir fáðu „second opinion“ hjá öðrum lækni. Aðalsteinn Egill Jónasson starfaði sem lögmaður bankans í gengistryggingarmálum og gætti réttar hans. Þannig átti hann aðkomu að málinu á fyrri stigum. Báðir dómararnir töldu sig ekki vanhæfa þó það blasi við að annar málsaðilinn gat ekki fengið hlutlausa málsmeðferð. Þegar kemur að mati á hæfi og hlutleysi þá verður það að vera bæði í raun og ásýnd. Annað er gjaldfelling á hlutleysiskröfunni og útþynning á Stjórnarskránni. Túlka þarf hlutleysiskröfuna mjög strangt.
Báðir dómararnir hljóta að draga sig í hlé á meðan þetta mál er til meðferðar upp í Hæstarétti, of mikið er í húfi að þau starfi óáreitt áfram.
Spáið í stöðuna sem er í Hæstarétti eins og stundum áður. Nú er verið að fjalla um mál sem tengist Hervöru Þorvaldsdóttur og í Hæstarétti er bróðir hennar Börkur dómari þrammandi um gangana. Þetta lítur allt saman mjög illa út!