

Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Brynjar: Sæll, þú ert laus við alla skarpskyggni og tilfinningu fyrir og þekkingu á því samfélagi sem þú lifir í.
Guðmundur Andri: Sæll sjálfur, nú hvernig þá?
Brynjar: Þú vilt ekki nota almannafé til að bjarga fyrirtækjum. Vilt ekki einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið!
Guðmundur Andri: Á Íslandi er opið markaðshagkerfi og fjárfestar eiga að bera áhættuna einir. Ég er á móti pilsfaldakapítalisma þar sem ríkinu er gert að hirða tapið.
Brynjar: Þú ert stíflaður af frekju og þvaðri.
Guðmundur Andri: Hvernig þá?
Brynjar: Þú vilt bara fjölga ríkisstarfsmönnum. Það eru fyrirtækin sem skapa verðmætin, en ekki opinberir starfsmenn.
Guðmundur Andri: Er það? menntakerfið undirbýr fólk fyrir atvinnulífið sem njóta góðs af.
Brynjar: Já, en einkageirinn borgar skattana sem fjármagnar til dæmis menntakerfið.
Guðmundur Andri: Áttu við að opinberir starfsmenn borgi ekki skatta?
Brynjar: Ee-hmm, hmm ee ee. Gjafir ríkisins til fyrirtækjanna er fyrir starfsfólkið ekki fyrirtækin.
Guðmundur Andri: Já er það, er ekki nærtækara að hluthafar fyrirtækjanna skili arðgreiðslum fyrri ára til baka og standi við sínar skuldbindingar?
Brynjar: Þú ert bara Marxisti, stíflaður af frekju!
Guðmundur Andri: En Þú?
Brynjar: Ég er frjálshyggjumaður, trúi á frjálsan markað nema þegar ríkisvæða á tapið. Þú ert alveg úr tengslum, stíflaður af frekju að vilja hag listamanna sem mestan. Bæ, nenni ekki að tala við svona Marxista sem vill ekki ríkisvæða tapið. Alveg stíflaður!
