


Katrín svaraði ekki spurningu minni heldur bandaði allri ábyrgð frá sér.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Eins og lesendur vita þá ritaði ég opið bréf til Katrínar forsætisráðherra hér á Miðjunni samanber „Skrifar Katrínu vegna Ásmundar Einars“. Svar hefur borist og langar mig að segja ykkur frá undanhlaupum ráðherrans.
Ég spurði hvort það væri siðferðilega rétt og boðlegt að Ásmundur Einar Daðason gegni ráðherraembætti. Í þessu sambandi vísaði ég til þriggja pistla á Miðjunni sem ráku kennitöluflakk fjölskyldu Ásmundar Einars, umræðu um hugsanlegt mansal og greiðslu launa sem voru undir lágmarkslaunum. En skoðum málið stuttlega áður en lengra er haldið.
Miklir fjármunir eru í húfi og siðferðileg viðmið eru undir!
Ársreikningar fyrirtækja fjölskyldu ráðherrans eru ekki í samræmi við lög um ársreikninga. Það blasir við þegar þeir eru rýndir. Skil á ársreikningum inn til ársreikningaskrár er einnig í ósamræmi við lögin. Viðurlög við brotum á lögunum um ársreikninga getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Svo er uppi grunur um að ákveðið fyrirtæki, jafnvel fleiri en eitt, í eigu og umsjón fjölskyldu ráðherrans hafi gerst brotlegt við 262. grein hegningarlaga. Lagagreinin fjallar um undanskot frá skatti. Sjálfur fullyrði ég ekkert varðandi þetta atriði og vísa alfarið í umfjöllun Kvennablaðsins og DV frá árinu 2016. Ég tel samt út frá lestri ársreikninganna að það sé fullt tilefni til að fram fari opinber rannsókn á bókhaldi og ársreikningum fyrirtækja í eigu og umsjón fjölskyldu ráðherrans. Miklir fjármunir eru í húfi og siðferðileg viðmið eru undir!
Ársreikningarnir eru rugl yfir bull í löngum bunum! Enginn ársreikningur er endurskoðaður eða staðfestur af löggiltum endurskoðanda. Það vekur athygli þegar í huga er haft þær háu fjárhæðir sem fyrirtækin höndla. Að viðskiptabanki fjölskyldunnar skuli ekki hafa krafist endurskoðaðra reikninga er sérstakt og gengur gegn almennum vinnureglum banka. En skoðum svar forsætisráðherra.
Katrín svaraði ekki spurningu minni heldur bandaði allri ábyrgð frá sér. Til dæmis segir hún siðferðilega ásjónu ríkisstjórnarinnar ekki vera á hennar ábyrgð. Katrín sagði meðal annars orðrétt „Í siðareglum ráðherra er áréttuð sú meginregla að hver og einn ráðherra gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum enda ber hver og einn ráðherra ábyrgð á sínum embættisfærslum. Ábyrgð ráðherra í þessu sambandi er því persónuleg og hvílir eingöngu á viðkomandi ráðherra en verður hvorki lögð á forsætisráðherra né ríkisstjórnina í heild sinni“.
ið þetta viðhorf forsætisráðherra er ýmislegt að athuga.
Katrín sagði einnig að það væri ekki á hennar verksviði að hafa eftirlit með brotum á lögum um ársreikningaskil, um ársreikninga eða skattaundanskotum. Sem sagt, það er í lagi að hugsanlegir misindismenn gegni æðstu stöðum innan íslenska ríkisins þar til mögulegur dómur fellur í máli. Við þetta viðhorf forsætisráðherra er ýmislegt að athuga en ég læt aðeins tvær athugasemdir fylgja að neðan.
Í fyrsta lagi, rannsóknarembætti ríkisins eru vanfjármögnuð eins og kom berlega í ljós í mútumáli Samherja. Þannig að það er kannski svona happa og glappa hvort menn sæti rannsókn og þá innan tilskilins fyrningarfrests. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að rannsóknarembætti hins opinbera hafa neyðst til að velja og hafna hvað er rannsakað og hvað ekki. Að vera vel tengdur gæti skipt hér máli til að sleppa við rannsókn.
Í öðru lagi, þá gengur ekki að orðspor ríkisins sé dregið inn í mál eins og hér um ræðir bara vegna þess að viðkomandi óreiðumaður á að njóta vafans. Þessu er öllu snúið á hvolf hjá forsætisráðherra. Í siðuðum samfélögum þá víkja aðilar til hliðar á meðan mál eru rannsökuð til að draga ekki orðspor ríkisins niður. Jafnvel í Samherjamálinu þá þurfti Þorsteinn Már að víkja úr stjórastólnum í tilraun til að verja orðspor fyrirtækisins, en ekki öfugt!
Forsætisráðherra svaraði ekki spurningunni, hafði ekki kjarkinn.
Allt tekið saman þá var ég ekki að spyrja um embættisfærslur félagsmálaráðherra og ég var alls ekki að spyrja hvort það væri á könnu forsætisráðherra að rannsaka mál. Mín spurning snéri um það hvort það væri siðferðilega boðlegt að Ásmundur Einar gegni ráðherraembætti undir þeim rökstuddu ásökunum sem hann og fjölskylda hans liggja undir? Forsætisráðherra svaraði ekki spurningunni, hafði ekki kjarkinn, heldur snéri út úr!
Það vekur eftirtekt að hvorki forsætisráðherra né Ásmundur Einar hafa óskað eftir opinberri rannsókn á þeim rökstuddu ásökunum sem ráðherrann situr undir. Af hverju ætli það sé?
Þegar Samherjamálið kom upp þá vantaði ekki viðbrögðin þó takmörkuð hafi verið, en mál Ásmundar Einars er þagað í hel. Ég tel mig vita ástæðuna. Um leið og opinber rannsókn fer af stað þá verður Ásmundur Einar að víkja og þá gæti ríkisstjórnin verið fallin. Katrín rígheldur í völdin og sviðsljósið því þar finnst henni greinilega gott að vera. Siðferðileg viðmið eru sett hliðar!
Þögn forsætisráðherra verður ekki túlkað á annan veg en þann að æðsta manni stjórnsýslu íslenska ríkisins þyki það forsvaranlegt að Ásmundur Einar gegni ráðherraembætti á meðan hann hefur ekki hreinsað sig af þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar. Sendir Katrín þar með skýr siðferðisleg skilaboð í þessum efnum. Niðurstaðan er siðferðilegur ósigur þjóðarinnar.

Ég vil gjarnan rifja hér upp þegar Þorsteinn Pálsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætisráðherra þá þurfti Albert Guðmundsson þáverandi iðnaðarráðherra og samflokksmaður að víkja sæti árið 1987 vegna ásakana um að misfara með aðstæður og ekki farið að skattalögum. Þar sýndi Þorsteinn siðferðisþrek í erfiðari stöðu og gaf hann ferskan tón inn í framtíðina. Líklega er þetta hans mesta afrek í stjórnmálum og mun lifa um aldur og æfi!
Guðmundur Árni Stefánsson Alþýðuflokki sá síðan sóma sinn í því að segja af sér ráðherraembætti árið 1994 fyrir vinahyglandi embættisfærslur. Segja má að Guðmundur Árni hafi tekið við siðferðiskefli Þorsteins og fest það í sessi. Hann á þakkir fyrir það frá þjóðinni!
Hér voru markaðar siðferðislínur sem ekki má stíga á eða yfir. Því miður hafa sumir þeir sem á eftir hafa komið ekki staðið undir sanngjörnum siðferðiskröfum þessara heiðursmanna. Hér er samt komið til sögunnar leiðbeinandi viðmið sem byggjandi er á. Það er aldrei of seint að breyta rétt og taka upp þráðinn frá þessum mönnum.
Það er líka ágætt að rifja upp hvernig Katrín sjálf komst til valda. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Bjartrar framtíðar hrökklaðist frá völdum af siðferðilegum ástæðum. Bjarni Ben kaus að upplýsa ekki samráðherra fyrr en hann var tilneyddur um að faðir hans hafði skrifað upp á meðmælabréf fyrir dæmdan kynferðisbrotamann í þeim tilgangi að hann fengi uppreist æru. Ráðherrar Bjartrar framtíðar héldu í hin sterku siðferðisviðmið sem Þorsteinn og Guðmundur Árni voru búnir að setja. Taldi Björt framtíð sig ekki geta setið í ríkisstjórn sem stæði ekki undir góðum siðferðilegum gildum! Bjarni Ben braut engin lög þegar hann veitti ekki áríðandi upplýsingar heldur braut hann almennar siðareglur samfélagsins og reif niður traust manna á milli. Hann var ekki ærlegur!

Ég þarf svo sem ekki að rifja það upp, en geri það samt, að Samherjaráðherrann Kristján Þór situr enn á í sínum ráðastól. Og Sigríður Andersen Landsréttar-klúðrari bíður og vonar að hún verði aftur ráðherra. Á meðan hún vonar vinnur hún að því að níða skóinn undan Mannréttindadómstól Evrópu. Sú háttsemi verður seint talin til siðferðisafreka. Miklu frekar fer Sigríður í sögubækurnar með skammarblett á ærunni. Því miður!
Ég þarf heldur ekki að rifja upp að Ásmundur Einar fer með málefni fátækra á Íslandi og Þverholtabúið ehf. er grunað um að hafa greitt vinnumanni laun undir lágmarkstaxta og ekki farið að skattalögum eins og í tilviki Alberts Guðmundssonar. Við skulum hafa það hugfast að eiginkona Ásmundar Einars hún Sunna Birna Helgadóttir var prókúruhafi fyrirtækisins. Forsætisráðherra landsins, henni Katrínu finnst þetta allt blandast voða vel saman og situr Ásmundur Einar áfram sem ráðherra.
Óhætt er að segja að svar forsætisráðherra dragi gluggatjöldin frá gluggum Stjórnarráðshússins svo vel sjáist inn frá Lækjartorgi. Margir kjósendur upplifa svik um heiðarlegra og siðferðissterkara samfélag sem Katrín tók þátt í að lofa þjóðinni eftir hrun. Því miður hefur orðið mikil siðferðileg afturför frá tíma Þorsteins og Guðmundar Árna. Þetta er Ísland í dag, siðferðisgildi eru á undanhaldi!
Svarbréf Katrínar verður birt hér á morgun, mánudag.