


En hvernig er það er engin vitleysis-sía á Fréttablaðinu.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Það lá illa á Páli Kr. Pálssyni framkvæmdastjóra í stuttum pistli í Fréttablaðinu í dag. Hann byrjaði pistilinn með eftirfarandi rangfærslu: „Samdrátturinn í hagkerfinu hófst fyrir alvöru haustið 2019 og er á flestum sviðum útflutnings og gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi.“
Opinberar tölur segja aðra sögu. Hagvöxtur árið 2019 var 1,9%. Og bara á síðasta ársfjórðungi ársins óx landsframleiðslan um 4,7% að raungildi. Útflutningur vöru og þjónustu jókst síðan um 0,5% á þessum síðasta ársfjórðungi miðað við sama tíma árið 2018. Þessi hálfs prósent aukning samanstendur nokkurn vegin af 3,7% aukningu á útfluttri þjónustu og 3,1% samdrætti í útfluttri vöru. Inn í þessu öllu er samdráttur í ferðaþjónustu.

Páll hélt áfram og þusaði um gengi krónunnar og sagði: „Gengið er vitlaust skráð, það vissu allir sem eitthvað vita“. Þessi fullyrðing Páls er hrokafull og afskaplega röng. Krónan er á ágætum stað þegar mið er tekið af utanríkisviðskiptum. Viðskiptajöfnuður var jákvæður um 51 milljarð króna á síðast fjórðungi síðasta árs og hefur verið jákvæður um langt skeið. Það sýnir sig í gengi krónunnar. Erlendar eignir þjóðarinnar eru einnig á góðum stað. Þessar góðu tölur leita inn í gengi krónunnar. Vera má að það sé á brattan að sækja hjá Páli og fleirum, en heildarmyndin er góð og stöðugleiki hefur verið langvarandi.
Páll kallar eftir gamaldags úrræðum við stjórn hagkerfisins eins og að Seðlabankinn taki ekki þátt í gjaldeyrismarkaðnum. Páll vill að krónan veikist því það er gott fyrir hann og nokkrar aðra. Hann vill að við hin borgum niður hans eigin rekstur með óhagstæðari krónu og meiri verðbólgu. Svona pennastriks-hagfræði er liðin tíð! Ég get þó huggað hinn úrilla Pál með því að raungengi krónunnar hefur lækkað um 1,2% á einu ári sem er talsvert. Þetta ætti að hjálpa fyrirtækjunum hans Páls sem stunda útflutning.
Svo þetta með þátttöku Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði þá er tilgangurinn ekki sá að stöðva hreyfingar í aðra hvora áttina. Tilgangurinn er miklu frekar að setja upp hraðahindrun á gengisþróunina í þá átt sem markaðurinn vill fara hverju sinni. Seðlabankinn verður að spila með alþjóðlega greiðslumiðlunarkerfinu og getur ekki þrátt fyrir djúpa vasa barist á móti vilja alþjóðlegra markaða, aðeins hægt hugsanlega á!
En Páll var ekki hættur með vafasamar yfirlýsingar sem henta honum svo vel prívat og persónulega, en ekki heildinni. Hann sagði að krefjandi aðstæður nú um stundir í hagkerfinu væri bara sterkri krónu að kenna og háum launum og háum vöxtum. Þetta er mikil einföldun. Hvað með að vextir eru hratt lækkandi en viðskiptabankinn hans Páls neitar bara að lækka vextina hjá honum af ýmsum ástæðum? Og svo það að sum fyrirtæki eru bara illa rekin eins og WOW air og kunna bara að spjara sig í meðbyr? Og hvað með vanfjármögnuð fyrirtæki eða rangar fjárfestingarákvarðanir? Er ekki hægt að finna einhverjar skýringar þar?
Já, og hvað með Pál sjálfan, er hann með of há laun?
Já, og hvað með Pál sjálfan, er hann með of há laun? Vill hann birta launaseðlana sína ásamt fjármagnstekjum til að sína að hann gæti hófs í rekstri? Ég er ansi hræddur um að Páll geti farið inn um 2-3 göt á beltinu sínu áður en hann krefur láglaunafólk um að taka á sig aukna verðbólgu og minni kaupmátt.
Páll hélt áfram, en þetta var svona sú vitleysa sem ég nennti að eltast við! En hvernig er það er engin vitleysis-sía á Fréttablaðinu. Kemst hvað sem er á síðurnar?