


Eftirlitið skilur enn þann dag í dag ekki áhættu. Þvílíkur eymdardalur þetta eftirlit er.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Svein Harald Oygard fyrrverandi seðlabankastjóri segir frá ýmsu athyglisverðu í bók sinni „Í víglínu íslenskra fjármála“. Sérstaka athygli vekur frásögn af heimsókn sérfræðinga frá Barclays banka til Fjármálaeftirlitsins árið 2006. Forstjóri þess á þeim tíma var lögmaðurinn og sjálfstæðisdrengurinn Jónas Fr. Jónsson. Eftir fundinn létu erlendu sérfræðingarnir hafa eftir sér að eftirlitið skilji ekki áhættu og hætti bankinn öllum lánveitingum til landsins.
Nýjar fréttir daglega.
miðjan.is
Í kjölfar hrunsins tók nýr forstjóri við hjá Fjármálaeftirlitinu og aftur var lögmaður valinn. Ekki sniðugt! Við starfinu tók Unnur Gunnarsdóttir og á hennar vakt var Ísland skráð sem peningaþvottastöð. Landið grálistað ásamt nokkrum vafasömum ríkjum. Eftirlitið skilur enn þann dag í dag ekki áhættu. Þvílíkur eymdardalur þetta eftirlit er.
Nú hefur eftirlitið runnið inn í Seðlabankann og áfram fer lögmaðurinn Unnur Gunnarsdóttir fyrir fjármálaeftirlitinu eins og að engin grálistun hafi átt sér stað.
En hver ætli að sé yfirmaður Unnar? Jú, Ásgeir Jónsson. Frægur af endemum frá Kaupþingsárum sínum. Sagði tvær sekúndur í hrun að allt væri „goody“ og að gylltar rósir myndu spretta upp rétt strax. Í kjölfarið töpuðu margir aleigunni. Sem sagt, haltur leiðir blindan í fjármálaeftirliti landsins!
Til upprifjunar, þá var aðal seðlabankastjórinn fyrir hrun einnig lögmaður. Þannig að þetta er orðið gott með að setja lögmenn á ranga staði! Einhvers staðar er fyrirstaða, svo ég tali nú ekki um treggáfur, sem veldur því að vitleysan er endurtekin. Einhverjum langar í meiri skakkaföll og er ástandið farið að líkjast Stokkhólms heilkenninu.