


Á þessum tíma hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum minnkað um 40% síðan snemma á árinu 2018 og í Kína er lækkunin 12%.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Viðskiptastríð milli landa skila engu umfram óþvingaða samninga. Þau eru jafnvel hættuleg og geta leitt til stríðsátaka. Verslunar- og tollastríð Bandaríkjanna og Kína hefur staðið yfir í tvö ár. Á þessum tíma hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum minnkað um 40% síðan snemma á árinu 2018 og í Kína er lækkunin 12%. Fyrra landið er enn þá með mikinn viðskiptahalla við útlönd á meðan Kína er áfram með sína jákvæðu stöðu gagnvart útlöndum. Neytendur beggja landa hafa haldið góðum dampi og eru áfram bjartsýnir. Vöxtur í smásölu í Kína vex enn þá í kringum 8% árlega og bandarískir neytendur eyða rúmlega 3% meira og hefur smásala aukist um 27% síðan í byrjun árs 2018. Hér gætir enn þá jákvæðra áhrifa frá stjórnartíð Baraks Obama fyrrverandi forseta landsins. Stóra málið er aftur á móti að yfirlýstur tilgangur Bandaríkjanna með tollastríðinu var að draga úr og helst eyða viðskiptahallanum. Hann hefur ekki tekið neinum breytingum síðastliðin tvö ár.
Fíllinn í viðhafnarstofu Bandaríkjanna er aftur á móti fjárlagahallinn sem er í sögulegu hámarki og vex hratt. Það er hættulegt ástand, svona einskonar bandarísk snjóhengja. Stærsti lánveitandi Bandaríkjanna er Kína þannig að þeir hafa eitthvað um það að segja hvernig hlutirnir eru í Bandarísku efnahagslífi. Þeir eru það stórir á gjaldeyrismarkaði, eiga mikið af dollurum, að þeir geta hreyft gengi dollarans þóknist þeim það í átt sem hagnast Kína en ekki endilega Bandaríkjunum. Hingað til hefur Kína sýnt ábyrgð í þessum efnum. Við skulum vona að svo verði áfram!