


Það á sem sagt að ræna þjóðina áfram þegar búið er að jarða Samherjamálið.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Nú um stundir eru fjölmiðlar uppfullir af bólgnum yfirlýsingum oddvita atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar. Ummælin þykja undarleg í augum útlendinga. Í dag rakst ég á ein sem er hnotskurn umræðunnar. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lýstu yfir að þau geri þá kröfu að sjávarútvegurinn starfi heiðarlega og löglega! Engar smá kröfur segi ég nú! Á öðrum þróuðum bólum þarf ekki að hafa slík ummæli uppi. Grunngildin eru á hreinu og staðinn vörður um þau. Á Íslandi lifir barbarisminn feitu lífi. Hann mun gera það áfram ef við þróum ekki nýtt handbragð!
Kristján Þór er bara áfram ráðherra og ráfar um skrifstofur sjóræningjanna. Gæti hitt mútuþæga útlendinga frá Afríku alveg óvart. Þá er betra að ráðherra Samherjans sé á staðnum! Hann telur sig nefnilega vera besta manninn í jobbið að byggja upp nýtt Ísland. Nei fyrirgefið, það var víst búið að byggja upp nýtt Ísland eftir hrunið. Núna á að byggja upp eðlilegt Ísland eða þannig.
Á sama tíma berst Kristján Þór gegn sterku auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár. Hann vill frekar útvatnað ákvæði. Þorvaldur Gylfason hefur bent á að sérhagsmunagömmum er að takast að skipta út ákvæðinu „fullt gjald“ fyrir nýtingu á fiskimiðunum. Í staðinn á að koma „eðlilegt gjald“. Það á sem sagt að ræna þjóðina áfram þegar búið er að jarða Samherjamálið. Allt í boði Vinstri grænna. Áfram Ísland!