

Það var innistæðulaus sýndarmennska. Karlar stjórna Íslandi og hafa alltaf gert.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Þegar kemur að ráðstöfun skatttekna ríkisins þá ráða konur engu. Valdamesta nefnd Alþingis er fjárlaganefnd, nefndin með peningavöldin. Í henni ríkir fornt karlræði. Af níu nefndarmönnum eru sjö karlmenn. Önnur kvennanna í peninganefndinni er nýgræðingur og kemur úr lang minnsta þingflokknum. Hún hefur lítinn slagkraft. Svo er formaður peninganefndarinnar karl og varaformaðurinn líka. Karl er síðan fjármálaráðherra og karl er ráðuneytisstjóri fjármála. Síðan er karl sjávarútvegsráðherra og líka landbúnaðarráðherra. Og ekki má svo gleyma karlinum sem stendur yfir utanríkisviðskiptum landsins. Þegar kemur að stjórnun peningamála hjá Alþingi þá sjá karlar um málið!
Síðan er karl forseti Alþingis og karl er forseti Íslands.

Þetta karlaveldi heldur áfram. Þegar stofnanir ríkisins og fyrirtæki í ríkiseigu eru skoðuð og þá þau sem þurfa að virka á ögurstundu þá stjórna karlar 85% þeirra. Stærstu sveitarfélögin í landinu eru síðan undir forystu karla.
Skoðum meira. Formenn KSÍ, HSÍ, KKÍ og ÍSÍ eru karlar. Landsliðsþjálfarar kvenna í fót-, hand- og körfubolta eru karlar. Svo er forseti Skáksambands Íslands karl og þjóðleikhússtjóri er líka karl. Rektorar HÍ, HR, HA og Háskólans á Bifröst eru karlar. Forstjóri SVR er karl og ferðamálastjóri er karl og forstjóri Íslandsstofu er karl. Ritstjórar Moggans eru karlar og svona gengur þetta áfram. Karlaveldið nær einnig inn í stjórnun helstu fyrirtækja landsins.
Þetta er ansi mikið af körlum finnst mér!
Mér datt þessi greining í hug þegar hún Angela Merkel kom í heimsókn og spjallaði við forsætisráðherra Norðurlandanna. Katrín Jak hampaði við það tilefni í heimspressunni jafnrétti kynjanna á Íslandi sem góðri fyrirmynd. Það var innistæðulaus sýndarmennska. Karlar stjórna Íslandi og hafa alltaf gert.
Hvernig er það, eru konur hættar að hnykla baráttuvöðvann? Þori ég, vil ég, get ég er ekki alveg að virka. Það þarf meira til eða eru konur bara sáttar við stöðu mála?
Þessi frétt Konur ráða engu! birtist fyrst á miðjan.is.