

Sólin leikur ekki við Jóhannes Þór. Eitt lítið regnský fylgir honum hvert fótmál.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Framvörður fyrirtækja í ferðaþjónustu hann Jóhannes Þór Skúlason hefur séð kolsvart í langan tíma. Það er ekki bara að honum finnist ferðaþjónustan vera í vanda heldur voru Eurovision lögin líka léleg. Gaf hann lögunum almennt lélegar einkunnir í sjónvarpsþættinum Alla leið.
Allt þetta ár hefur hver rangfærslan á fætur annarri komið frá niðurrífaranum honum Jóhannesi Þór. Hef ég stundum reynt að setja fram leiðréttingar hér á vettvangi Miðjunnar. Ég fæ bara ekki rönd við reist, færibandið hans gengur svo hratt. Hann hélt uppteknum hætti í Kastljósi 27. maí. Ein yfirlýsingin frá honum var að ferðamönnum hefði fækkað um um 25% í apríl.
Opinber gögn segja aðra sögu. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 9,5% í apríl í samanburði við sama mánuð árið 2018. Ég skal vera góður við Jóhannes Þór og gef mér að hann hafi mismælt sig og aðeins verið að tala um erlenda ferðamenn. Svona eins og að íslendingar séu ekki ferðamenn. Fækkun þeirra var 20% í apríl. Það eru samt 5 prósentustigum minna en 25% eða 5.100 ferðamenn eða 30 ferðir með Boeing 757 vélum. Manninum munar ekkert um svona smámuni.
Rangfærslurnar voru í öllum regnbogans litum. Til dæmis þessi hérna að samdráttur sé um allt land í ferðaþjónustunni. Ég ætla ekki að framvörðurinn hafi trúað eigin bulli, en honum munar ekkert um eina ósvífnina til. Þær eru hvort sem er orðnar svo margar.
Jóhannesi datt ekki í hug að minnast á að Voight Travel og Transavia hafa í sameiningu byrjað reglubundið flug frá Hollandi til Akureyrar. Sú inngjöf fyrir norðurlandið eru einnig smámunir hjá Jóhannesi Þór. Framkvædmastjóri Voight Travel sagði áhuga á Íslandi mikinn. Já, það var ólíkt skemmtilegra að hlusta á hollendinginn fljúgandi.
Til að lyfta Jóhannesi Þór aðeins upp þá var fjöldi ferðamanna um Kelfavík í apríl 36% fleirri en í sama mánuði árið 2016 og 69% fleirri en árið 2015. Það er tröllslegur vöxtur sem líklega engin önnur þjóð býr við nú um stundir.
Sólin leikur ekki við Jóhannes Þór. Eitt lítið regnský fylgir honum hvert fótmál.
Þessi frétt Jóhannes niðurrífari birtist fyrst á miðjan.is.