

Gaf ráðherranefndin (ríkisstjórnin) grænt ljós á lögbrot ISAVIA?
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Þegar WOW air fór endanlega á hausinn sagði Bjarni Ben, fjármálaráðherra, að ekki hefði komið til greina að bjarga flugfélaginu með opinberu fé. Áhættan væri of mikil. Sagði hann ráðherranefnd sem fylgdist með örlögum félagsins vera sammála um þetta atriði.
Nýlega upplýstist endanlega að ISAVIA hefði veitt WOW air lán upp á rúmlega 2 milljarða í formi greiðslufrests á lendingargjöldum. Lán sem er ígildi ólöglegs ríkisstyrks til fyrirtækis í samkeppnisrekstri. Ef héraðsdómur stendur þá er öll þessi fjárhæð nánast töpuð þar sem þrotabú félagsins ræður ekki við skuldina.
Hvað ætli fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi haft um þetta að segja. Jú, hann bað menn að skoða heildarmyndina. Á meðan WOW air var enn að fljúga þá skapaði það aðrar tekjur á móti töpuðum lendingargjöldum fyrir Keflavíkurflugvöll. Þannig að tapið varð minna en ella. Jahá, þetta er stórundarleg réttlæting!
Ofangreind tvenn rök eru gagnkvæmt útilokandi. Hér verður ráðherrann að velja hvoru megin hann ætlar að standa. Fyrri rökin eru skynsamleg og í samræmi við samkeppnislög sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Seinni rökin halda ekki vatni og styðja við ólögmæti.
Þrátt fyrir að áframhaldandi flug WOW air skapaði óræðar hliðartekjur fyrir flugvöllinn þá uxu ógreidd lendingargjöld hraðar. Þetta kom fram í máli starfandi forstjóra ISAVIA, Sveinbjörns Indriðasonar, í fjölmiðlum nýverið.
Önnur flugfélög nutu ekki sambærilegs fjárstuðnings frá ríkisfyrirtækinu ISAVIA. Með ákvörðunum sínum skekkti ISAVIA samkeppnistöðu annarra flugfélaga og olli hugsanlega tapi hjá þeim. Það er alvarlegt og ekki útilokað að flugfélögin sæki sér bætur til ISAVIA.
Af hverju Bjarni Ben ákvað að verja ákvarðanir ISAVIA er óskiljanlegt. Það voru engir þjóðarhagsmunir undir með falli WOW air eins og komið hefur á daginn!
Gaf ráðherranefndin (ríkisstjórnin) grænt ljós á lögbrot ISAVIA? Ráðherrann verður að upplýsa málið.
Tveimur grundvallar spurningum er ósvarað:
- 1. Hverjir ætla að axla ábyrgð á málinu. Eða á að beita íslensku hefðinni – engin axlar ábyrgð?
- 2. Hvað ætlaði ISAVIA, Samgöngustofa og ríkisstjórnin að láta málið ganga lengi án inngripa og hvað mátti málið kosta ríkissjóð? Tveir milljarðar stoppuðu ekki málið, hvað með 3 eða 4 eða 10 milljaraða?
Þessi frétt Bjarni Ben, WOW og Isavia birtist fyrst á miðjan.is.