

Hin klassíska misskipting er í hans fílabeinsturni náttúrulögmál.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Gylfi Zoega barðist gegn mannsæmandi lægstu launum á opinberum vettvangi fyrir nýgerða kjarasamninga. Skilja mátti að bara mætti semja um að fátækir yrðu minna fátækir. Yrðu að vera áfram fátækir annars myndi heimsmynd Gylfa hrynja.
Tölvulíkan Gylfa segir honum að ákveðinn fjöldi verði alltaf að vera fátækur svo hans líkir hafi það áfram of gott. Hin klassíska misskipting er í hans fílabeinsturni náttúrulögmál.
Það er því löngu tímabært að spyrja hvort að hinn málglaði prófessor sé trúverðugur baráttumaður gegn mannsæmandi lægstu launum.
Nýlega fékk Gylfi eingreiðslu upp á 70.000 krónur sem er nærri því að vera fjórfalt hærra en láglaunafólk samdi um. Síðan má áætla út frá kjarasamningi að heildarlaun Gylfa séu um 1,7 milljónir á mánuði. Inn í tölunni er þóknun fyrir setu í peningastefnunefnd. Þannig að hans eigin lífskjör, sem hann þiggur frá ríkinu, eru gjörólík kjörum fátæklinga.
Munar fimmfalt á kjörum prófessorsins og nýjum lægstu launum. En er verðmætasköpun Gylfa fimmföld. Um það má efast alla daga ársins.
Nýlega sagði framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu að tveggja daga verkfall kosti greinina hálfan milljarð. Það er býsna há fjárhæð verð ég að segja. Ef prófessorar landsins færu í tveggja daga verkfall myndi varla nokkur maður finna fyrir verkleysinu og ríkið myndi spara óþarfa útgjöld.
Til að herða frekar taumhaldið á launaþróun má benda Gylfa á betri leiðir en að ráðast á fátæka. Útvista má öllum hagfræðirannsóknum og háskólakennslu í hagfræði til Póllands. Laun prófessora þar eru 270.000 krónur. Ábatinn yrði minni ríkisútgjöld og minni verðþrýstingur.
Síðan er ágætt að benda prófessornum á að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun þá hefur fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá aldrei verið meiri. Það merkir að draga þurfi úr fjárframlögum til háskóla vegna offramleiðslu. Sú aðgerð myndi treysta taumhaldið enn frekar. Svo þétt væri takið orðið að það sæist vel í hvítar kjúkur bláu handarinnar.
Það færi betur á því að Gylfi Zoega byrji á sjálfum sér áður en hann krefur aðra um að lifa á horriminni. Gylfi þarf að breyta forsendum tölvulíkansins sem hugsar fyrir hann. Það er komið nóg af ótrúverðugum áróðri sem hann flytur á kostnað skattborgara.
Þessi frétt Gylfi Zoega með fjórfalda eingreiðslu birtist fyrst á miðjan.is.